Ungverjar mæta norska landsliðinu í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í handknattleik í Vínarborg á föstudaginn. Það var ljóst eftir að ungverska landsliðið tapaði fyrir Frökkum í síðustu umferð milliriðils eitt í Debrecen í Ungverjalandi í kvöld, 30:27. Ungverska landsliðið hafnaði í öðru sæti riðilsins.
Heimsmeistarar Frakkar vinna riðilinn og mæta annað hvort Danmörku eða Hollandi í hinni viðureign undanúrslitanna.
Danmörk og Holland mætast í úrslitaleik um annað sæti milliriðils tvö í Vínarborg annað kvöld klukkan 17.
Frakkar voru sterkari lengst af viðureignarinnar við Ungverja í Debrecen. Fyrstu 20 mínúturnar lék franska liðið afar vel og var með tveggja til fjögurra marka forskot. Ungverjar, sem ekki höfðu tapað leik á mótinu fyrir viðureignina í kvöld, náðu að jafna fyrir lok hálfleiksins, 13:13.
Frakkar sterkari í síðari hálfleik
Heimsmeistararnir tóku völdin í upphafi síðari hálfleiks. Þeir náði þriggja marka forskoti sem hélst nánast til leiksloka. Ungverska liðinu tókst að minnka muninn í tvö mörk, 29:27, rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok. Nær komust Ungverjar ekki.
Chloé Valentini og Pauletta Foppa skoruðu fimm mörk hvor fyrir franska liðið og voru markahæstar.
Katrin Klujber var atkvæðamest í ungverska liðinu með níu mörk, sjö úr vítaköstum hvar hún var með fullkomna nýtingu. Viktória Gyori-Lukács var næst með fjögur mörk.