- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýr markvörður brást ekki – loksins sigur og stórleikur hjá Donna

Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari Fredericia HK. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Nýr markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Fredericia HK og fyrrverandi markvörður Vals, Ungverjinn Martin Nagy, fór vel af stað með liðinu í kvöld þegar lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar lögðu Skjern, 31:27, í 15. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. Nagy kom til félagsins í gær og stökk beint inn í liðið í kvöld og varði 14 skot, 36%. Hann verður hjá félaginu til ársloka meðan tveir markverðir Fredericia jafna sig af meiðslum.


Einar Þorsteinn Ólafsson lék með Fredericia HK en skoraði ekki. Hann átti eina stoðsendingu. Arnór Viðarsson var ekki í leikmannahópi Fredericia HK að þessu sinni fremur en í undanförnum leikjum.

Fredericia HK er áfram í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar. Liðið er með 21 stig, er fjórum stigum á eftir GOG og Aalborg Håndbold sem eru í tveimur efstu sætunum. GOG vann botnlið Grindsted, 32:28, og Aalborg lagði Ringsted, 35:32.

Loksins vann Ribe-Esbjerg

Loksins kom að því að Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg gat fagnað sigri í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld eftir hvern tapleikinn á fætur öðrum. Ribe-Esbjerg vann stórsigur á Kolding, 37:22, í Kolding eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 19:13. Elvar Ásgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Ribe-Esbjerg og gaf tvær stoðsendingar. Talning varinna skota vafðist fyrir tölfræðingum í Kolding í kvöld. Þar af leiðandi eru engar upplýsingar að fá um frammistöðu Ágústs Elís Björgvinssonar markvarðar Ribe-Esbjerg á gamla heimavellinum.

Stórleikur hjá Donna

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og liðsfélagar í Skanderborg AGF risu upp á afturlappirnar á heimavelli í kvöld og svöruðu fyrir sig eftir 14 marka tap í heimsókn til Mors-Thy um síðustu helgi. Enginn lék betur í kvöld en Donni. Hann skoraði 10 mörk og gaf þrjár stoðsendingar í þriggja marka sigri Skanderborg AGF á Bjerringbro/Silkeborg, 33:30.

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði 10 mörk fyrir Skanderborg AGF í kvöld. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsending í liði Bjerringbro/Silkeborg.

Skanderborg AGF og Bjerringbro/Silkeborg höfðu sætaskipti eftir viðureignina. Fyrrnefnda liðið fór upp í fimmta sæti en það síðarnefnda féll niður í það sjötta.

Arnór Atlason og liðsmenn hans í TTH Holstebro gerði jafntefli í grannaslag við Mors-Thy á heimavelli, 31:31.

Staðan í dönsku úrvalsdeildinni:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -