Eyjamaðurinn Elmar Erlingsson sló ekki slöku við í kvöld þegar lið hans, Nordhorn-Lingen, fékk TuS N-Lübbecke í heimsókn til viðureignar í 2. deild þýska handknattleiksins. Elmar dreif sína samherja áfram til sigurs, 30:28. Staðan í hálfleik var 14:11, Nordhorn-Lingen í vil.
Elmar skoraði fjögur mörk og gaf átta stoðsendingar og var einna aðsópsmestur leikmanna Nordhorn. Liðið hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt undanfarnar vikur og er nú komið upp í áttunda sæti með 17 stig eftir 16 leiki. TuS N-Lübbecke má muna sinn fífil fegri um þessar mundir. Liðið er næst neðst með 12 stig.
Grannlið TuS N-Lübbecke, GWD Minden, vann Dessauer á útivelli í kvöld, 35:28, og færðist upp að hlið Balingen-Weilstetten og Hüttenberg í annað til fjórða sæti með 21 stig eftir 16 leiki.
Staðan í 2. deild þýska handknattleiksins í karlaflokki: