„Sveinn kemur til móts við okkur á morgun,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við handbolta.is rétt eftir leikinn við Svía í kvöld í Kristianstad spurður út í meiðsli Arnars Freys Arnarsson línumanns sem tognaði í aftanverðu vinstra læri rétt fyrir miðjan síðari hálfleik. Sveinn Jóhannsson línumaður Kolstad í Noregi kemur inn í staðinn fyrir Arnar.
„Ég ætla ekki að slá einhverju alveg föstu. Ég læt sjúkraþjálfarana taka stöðuna á Arnari Frey á morgun en því miður er útlitið ekki gott, það er bara þannig. Tognun í aftanverðu læri er alvarleg,“ sagði Snorri Steinn ennfremur og bætir við að það sé áfall ef sú verður raunin að Arnar Freyr verði ekki með á HM.
„Arnar Freyr var mjög góður á æfingum. Sú er ástæðan fyrir því að hann byrjaði leikinn í kvöld. Það er einnig viðbúið að fjarvera hans kalli ennfremur á einhverjar breytingar á leik okkar,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í kvöld.