- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Heiður og stolt að vera fyrirliði – fékk herbergi frá árinu 1920

Elliði Snær Viðarssonm fyrirliði, í anddyrir hótel Westin í Zagreb í dag. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég fékk þetta verkefni inni á leikvellinum og því fylgir mikið stolt,“ segir Elliði Snær Viðarsson sem var fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í vináttuleikjunum við Svía á dögunum og fær það hlutverk áfram í fyrstu leikjum íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu meðan Aron Pálmarsson jafnar sig af meiðslum sem hrjá hann um þessar mundir.


„Það er með því stærsta sem til er að vera fyrirliði íslenska landsliðsins,“ segir Elliði Snær sem er eftir því sem næst verður komist fyrsti uppaldi Eyjamaðurinn sem hlýtur þennan heiður.

Tekið til óspilltra málanna

Elliði Snær og félagar í íslenska landsliðinu komu til Zagreb í gær og tóku strax til óspilltra málanna. Æft var síðdegis og áfram verður haldið í dag auk þess sem fundað er og lagt á ráðin áður en fyrsti leikurinn hefst á fimmtudaginn klukkan 19.30 gegn landsliði Grænhöfðaeyja.

Nýta hverja stund

„Eins og Snorri Steinn segir þá eru lokaundirbúningurinn fyrir HM. Við verðum að hefja mótið af miklum krafti strax frá byrjun. Ef við byrjum ekki vel þá getur allt saman litið illa út hjá okkur. Við nýtum hvern dag og hverja stund til þess að vera sem best með á nótunum þegar alvaran hefst,“ segir fyrirliðinn ákveðinn en handbolti.is hitti hann að máli á hóteli landsliðsins upp úr hádeginu í dag.

Óheppinn en svaf vel

Elliði Snær og Gísli Þorgeir Kristjánsson eru herbegisfélagar að þessu sinni. Þeir voru óheppnir með herbergi á hótel Westin Zagreb. Það kom þó ekki að sök hjá Elliða sem svaf eins og steinn.

„Öll herbergin hinum megin á ganginum eru flott en okkar Gísla herbergi er frá 1920. Ég skil ekki hvað hefur gerst. Annars svaf ég mjög vel, örugglega besta nóttin síðan við fórum á þetta flakk svo það er óvíst að við förum að skipta um herbergi,“ sagði Elliði Snær Viðarsson fyrirliði landsliðsins léttur í bragði eins og venjulega.

Nánar er rætt við Elliða Snæ í myndskeiði sem fylgir fréttinni.

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu 2025 verður gegn Grænhöfðaeyjum í Zagreb Arena á fimmtudaginn, 16. janúar. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Þar á eftir verður leikið gegn Kúbu 18. janúar og Slóvenum 20. janúar. Framhaldið ræðst síðan af árangrinum í leikjunum þremur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -