„Við höfum æft vel og erum spenntir fyrir að byrja loksins mótið,“ segir Óðinn Þór Ríkharðsson hornamaðurinn eldsnöggi og landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is sem tekið var upp í gær á hóteli landsliðsins í Zagreb.
Óðinn Þór segir undirbúninginn hafa gengið vel undanfarnar tvær vikur.
„Fyrsta markmiðið er að vinna riðilinn. Við tökum einn leik fyrir í einu og við erum klárir í slaginn,“ segir Óðinn Þór sem tók þátt í viðureigninni gegn Grænhöfðaeyjum á HM fyrir tveimur árum. Ísland vann 40:30 og skoraði Óðinn Þór fimm mörk í leiknum en hann og Sigvaldi Björn Guðjónsson skiptu leiknum nokkurn veginn á milli sín stöðu hægri hornamanns.
„Við þurftum að hafa fyrir sigrinum fyrir tveimur árum og verkefnið að þessu sinni verður ekki auðvelt,“ segir Óðinn Þór Ríkharðsson.
Nánar er rætt við Óðinn Þór í myndskeiði hér fyrir ofan.
Viðureign Íslands og Grænhöfðaeyja í fyrstu umferð riðlakeppni HM karla hefst klukkan 19.30 í kvöld. Handbolti.is er með blaðamann og ljósmyndara í Zagreb sem fylgjast með leiknum og öðrum því sem kemur íslenska landsliðinu við meðan það er með í mótinu.
Íslenska landsliðið leikur við Kúbu á laugardaginn kl. 19.30 og Slóveníu á mánudaginn á sama tíma. Hvað tekur við að leikjunum þremur loknum skýrist af úrslitum leikjanna þriggja við Grænhöfðaeyjar, Kúbu og Slóveníu.