Fram færðist á ný upp í annað sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld eftir tveggja marka sigur á ÍR, 22:20, í 12. umferð deildarinnar í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal. Fram hefur þar með 18 stig eins og Haukar. Fram stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum. Liðin tvö eru fjórum stigum á eftir Val.
ÍR er í sjötta sæti með sjö stig, stigi á eftir Stjörnunni sem á leik til góða gegn Gróttu á sunnudaginn á heimavelli. Síðar sama dag mætast Selfoss og ÍBV.
Fram hafði fimm marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik, 14:9. Framan af síðari hálfleik var Fram með ágætt forskot allt þar til ÍR-ingar náðu ágætu áhlaupi og minnkuðu muninn í eitt mark, 18:17.
Minnugar fyrri leiksins í október sem lauk með jafntefli, 20:20, svöruðu Framarar með því að ná þriggja marka forskoti áður en Katrín Tinna Jensdóttir skoraði af línu fyrir ÍR og minnkaði muninn í eitt mark, 21:20, þegar um fjórar mínútur voru eftir.
Þrátt fyrir ákafar tilraunin tókst ÍR-ingum ekki jafna metin. Íris Anna Gísladóttir innsiglaði sigur Fram skömmu fyrir leikslok, 22:20.
Þetta var fyrst tap ÍR á nýju ári, hvort heldur í Olísdeildinni eða í Poeradebikarnum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild kvenna.
Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Íris Anna Gísladóttir 3, Karen Knútsdóttir 2, Alfa Brá Hagalín 2, Berglind Þorsteinsdóttir 2, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1/1, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Varin skot: Darija Zecevic 9, 33,3% – Ethel Gyða Bjarnasen 3, 60%.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 7/3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 3, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Vaka Líf Kristinsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 7/1, 46,7% – Ingunn María Brynjarsdóttir 5, 26,3%.
Tölfræði HBStatz.