„Ég er mjög ánægður með sigurinn og hversu fagmannlega við gerðum þetta. Beisik skyldusigur,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins eftir 21 marks sigur á Kúbu í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistarmótsins í handknattleik karla í Zagreb Arena í kvöld.
Aron tók þátt í leiknum fyrstu 15 mínúturnar og skoraði þrjú mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Hann sagði allt hafa gengið eins og það átti að gera í fyrsta leiknum á HM en Aron sat yfir í fyrsta leiknum. Ekki stóð til að hann yrði með fyrr en í milliriðlakeppninni.
„Ég iðaði í skinninu fyrir leikinn að taka þátt og fá þessar mínútur, fá harpix á fingurnar og finna tilfinninguna fyrir dúknum. Ég er bara þakklátur fyrir tækifærið,“ sagði Aron og bætti við.
„Ég vildi ólmur fá nokkrar mínútur í þessum leik. Mér leið vel og bjó mig mjög vel undir leikinn eins og aðrir í liðinu. Við gerðum þetta allt mjög vel. Við héldum dampi í 60 mínútur,“ sagði Aron sem er strax farinn að hugsa um næsta leik sem verður við Slóveníu á mánudagskvöldið kl. 19.30.
Lengra viðtal er við Aron hér fyrir ofan í greininni.