- Auglýsing -
- Auglýsing -

Voru hársbreidd frá undanúrslitum

Íslenska landsliðið gerði jafntefli við Póllandi í dag. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, var hársbreidd frá sæti í undanúrslitum B-deildar Evrópumótsins í handknattleik kvenna í dag. Liðið gerði jafntefli, 24:24, í háspennuleik í síðasta leik sínum í A-riðli keppninnar. Rakel Sara Elvarsdóttir fékk möguleika til að tryggja Íslandi sigur á síðustu sekúndunum en pólski markvörðurinn sá við henni.


Ísland og Pólland eru þar með jöfn að stigum í öðru til þriðja sæti með þrjú stig en pólska liðið tekur sæti í undanúrslitum á markamun.


Ísland leikur þar með um fimmta til áttunda sæti keppninnar á laugardag og á sunnudag. Það skýrist í kvöld hvaða lið verður andstæðingur þess íslenska í krosspilinu á laugardaginn.


Viðureignin í Sport Center Jane Sandanski í Skopje í dag var hnífjöfn og æsilega spennandi. Pólverjar voru á undan að skora en íslenska liðið jafnaði metin nánast jafn harðan allan fyrri hálfleikinn. Pólska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, og náði þriggja marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 14:11. Íslenska liðið jafnaði 14:14. Bríet Ómarsdóttir kom Íslandi yfir í fyrsta sinn, 17:16, þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Bríet Ómarsdóttir skoraði þrjú mörk og kom Íslandi yfir í fyrsta sinn í leiknum, 17:16. Mynd/EHF


Áfram var leikurinn í járnum, hnífjafn og æsilega spennandi. Rakel Sara kom Íslandi yfir, 21:20, og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir jafnaði metin, 23:23, þegar tvær mínútur voru eftir af leiktímanum. Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir markvörður varði úr opnu færi þegar 58 sekúndur voru til leiksloka og staðan jöfn, 23:23. Jóhanna Margrét kom Íslandi yfir, 24:23, hálfri mínútu fyrir leikslok. Pólverjar jöfnuðu metin, 24:24, þegar 19 sekúndur voru til leiksloka. Í lokasókninni fékk Rakel Sara færi til að skora sigurmarkið úr hægra horni en allt kom fyrir ekki.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var markahæst í leiknum með átta mörk. Hér er eitt þeirra í uppsiglingu. Mynd/EHF


Mörk Íslands: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 8/1, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Bríet Ómarsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Ída Margrét Stefánsdóttir 1, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 1, Júlía Sóley Björnsdóttir 1.
Varin skot: Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 9, Signý Pála Pálsdóttir 1/1.

Lokastaðan:
Hvíta-Rússland 3 – 3 – 0 – 0 – 82:65 – 6.
Pólland 3 – 1 – 1 – 1 – 84:74 – 3.
Ísland 3 – 1 – 1 – 1 – 76:74 – 3.
Finnland 3 – 0 – 0 – 3 – 67:96 – 0.

Hvíta-Rússland vann Finnland, 32:17, fyrr í dag.


Í kvöld fara fram síðustu leikir B-riðils. Hollendingar og Færeyingar eigast við og Norður-Makedónía og Kósovó. Að þeim leikjum loknum verður ljóst hvaða lið mætast í krossspili á laugardaginn. Fimm lið eru í B-riðli. Bosnía hefur lokið keppni án stiga.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -