Íslendingarnir fjórir hjá norska meistaraliðinu Kolstad komu allir við sögu í kvöld þegar liðið hóf keppni á ný í norsku úrvalsdeildinni eftir HM-hlé. Kolstad vann Bækkelaget, 29:24, og settist í efsta sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan Elverum sem á leik til góða á Þrándheimsliðið.
Allir skoruðu
Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Kolstad-liðið. Benedikt Gunnar átti auk þess tvær stoðsendingar. Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu. Fjórði Íslendingurinn, Sveinn Jóhannsson, skoraði eitt mark af línunni.
![](https://handbolti.is/wp-content/uploads/2024/10/DSC_1904-1024x658.jpg)
Ísak var frábær
Ísak Steinsson stóð í marki Drammen í kvöld þegar liðið vann Halden, 29:24, á heimavelli. Hann átti mjög góðan leik, varði 14 skot, 38%, auk þess að eiga eina stoðsendingu í kærkomnum sigri á heimavelli. Drammen var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10. Liðið er í sjötta sæti með 19 stig að loknum 18 leikjum.
Tveir sigurleikir í úrvalsdeild kvenna
Í úrvalsdeild kvenna heldur Storhamar, sem Axel Stefánsson er einn þjálfara hjá, áfram sigurgöngu sinni. Storhamar sótti Haslum heim og vann með átta marka mun, 33:25. Storhamar er í efsta sæti með 28 stig efti 15 leiki.
Elías Már Halldórsson fagnaði einnig kærkomnum sigri í kvöld með Fredrikstad Bkl. Hann þjálfar liðið út leiktíðina. Fredrikstad Bkl lagi Fana með níu marka mun á útivelli. 35:26. Með sigrinum fór Fredrikstad Bkl upp fyrir Fana og er í níunda sæti með 9 stig eftir 15 leiki.
Stöðuna í norsku úrvalsdeildunum og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.