Spennan í toppbaráttu Grill 66-deildar karla jókst til muna í dag þegar Selfoss lagði efsta lið deildarinnar, Þór, 34:28, í Sethöllinni á Selfossi. Um leið tylltu Selfyssingar sér í efsta sæti deildarinnar. Þeir hafa 20 stig eftir 12 leiki, eru tveimur stigum fyrir ofan Þór sem á leik til góða.
Þór stendur betur að vígi
Þrátt fyrir tapið stendur Þór aðeins betur að vígi í innbyrðisleikjum ef liðin verða jöfn að stigum þegar upp verður staðið. Þórsarar unnu fyrri viðureign liðanna með átta marka mun, 34:26, og eiga þar með tvö mörk upp á að hlaupa ef hvorugt liðanna tapar fleiri stigum á endaspretti deildarkeppninnar.
Selfyssingar voru sterkari frá upphafi til enda leiksins í Sethöllinni í dag. Þeir voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13, og lánaðist að halda aftur af leikmönnum Þórs áfram í síðari hálfleik.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Selfoss: Hannes Höskuldsson 8, Jónas Karl Gunnlaugsson 5, Jason Dagur Þórisson 4, Sölvi Svavarsson 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Valdimar Örn Ingvarsson 3, Hákon Garri Gestsson 2, Alvaro Mallols Fernandez 1, Árni Ísleifsson 1, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Guðjón Baldur Ómarsson 1, Jón Þórarinn Þorsteinsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 6, Alexander Hrafnkelsson 5.
Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 9, Aron Hólm Kristjánsson 5, Hafþór Már Vignisson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Þórður Tandri Ágústsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Garðar Már Jónsson 1, Þormar Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 7.
Tölfræði HBritara.