- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ásgeir gefur kost á sér til varaformennsku HSÍ

Ásgeir Jónsson sækist eftir varaformennsku hjá HSÍ. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -


Ásgeir Jónsson fráfarandi formaður handknattleiksdeildar FH hefur ákveðið að gefa kost á sér til stjórnar Handknattleikssambands Íslands á ársþingi HSÍ sem haldið verður 5. apríl. Ásgeir, stefnir á embætti varaformanns HSÍ. Í tilkynningu sem Ásgeir sendi frá sér fyrir stundu segist hann styðja heilshugar framboð Jóns Halldórssonar til formanns og vilja gjarnan vinna við hlið Jóns í nýrri stjórn við áframhaldandi uppbyggingu íþróttarinnar hér á landi.


„Um leið og ég hvet öll sem áhuga hafa að bjóða fram aðstoð sína fyrir félag sitt eða Handknattleikssambandið þá tilkynni ég hér með að ég býð mig fram til varaformanns Handknattleikssambands Íslands á ársþingi sambandsins 5. apríl næstkomandi,” segir Ásgeir og undirstrikar að handknattleikshreyfingin gangi sameinuð til verka handboltanum til heilla.

Yfirlýsing Ásgeirs Jónssonar:

Það er gaman að tilheyra…

Að hafa metnað, vilja og áhuga er veigamikið veganesti í lífinu. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að vera virkur þátttakandi í handknattleikshreyfingunni allt mitt líf.

Það er ómetanlegt hvað það hefur gefið mér mikið. Ég hef kynnst ótrúlega mikið af öflugu og góðu fólki sem leggur á sig mikla vinnu fyrir sitt félag. Það er aðdáunarvert að fylgjast með.

Það er mjög mikilvægt að Handknattleikssambandið og félögin í landinu starfi þétt saman. Að heiðarleiki og virðing ríki á milli allra aðila. Þannig næst árangur öllum til góðs.

Íslenskur handbolti er vinsæll og áhorf mikið. Gæðin alltaf að aukast og ungir og efnilegir íslenskir leikmenn fá tækifæri í atvinnumennsku erlendis. Þetta er félögunum að þakka og þeirra starfi.

Yngri landslið okkar hafa sýnt og sannað í gegnum árin að efniviðurinn er mikill og framtíðin björt. A landslið kvenna og A landslið karla hafa síðan náð framúrskarandi árangri eins og við öll höfum séð og fylgst með af stolti. Það eru spennandi tímar framundan og mikilvægt að halda vel utanum allt okkar góða landsliðsfólk.

Við erum á réttri leið, en getum alltaf gert betur. Við verðum að gera það saman.

Handknattleikssamband Íslands leitar nú nýrrar forystu.
Jón Halldórsson hefur tilkynnt þá ákvörðun sína að gefa kost á sér til embættis formanns og lagt fram áhersluatriði sín. Ég styð hann heilshugar.

Að mínu mati er mjög mikilvægt að ganga sameinuð til verks í þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru. Það er jafnframt mjög ánægjulegt þegar framtíðarsýn fólks, markmið og áherslur eru með þeim hætti að aðilum langar til að sameinast til góðs um verkefni sem skiptir það máli. Að vinna saman handboltanum til heilla.

Um leið og ég hvet öll sem áhuga hafa að bjóða fram aðstoð sína fyrir félag sitt eða Handknattleikssambandið þá tilkynni ég hér með að ég býð mig fram til varaformanns Handknattleikssambands Íslands á ársþingi sambandsins 5. apríl næstkomandi.

Áfram handboltinn

Ásgeir Jónsson.

Sjá einnig: Jón Halldórsson sækist eftir formennsku HSÍ

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -