- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsti sigur KA á útivelli – lögðu ÍR í markaleik

Leikmenn KA fagna bæði sunnanlands og norðan þessa dagana. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -


KA vann í fyrsta sinn fyrsta útileik á keppnistímabilinu í Olísdeild karla í dag þegar Akureyringar lögðu ÍR-inga, 39:34, í hröðum og skemmtilegum leik í Skógarseli. Sigurinn var einstaklega mikilvægur KA-mönnum en að sama skapi var tapið ÍR-liðinu vonbrigði. ÍR-ingar eru þar með komnir fjórum stigum frá níunda sætinu þegar sex umferðir eru eftir. KA-menn lyftu sér af mesta hættusvæði deildarinnar, standa í níunda sæti, tveimur stigum fyrir ofan Gróttu sem á leik upp í erminni.


Eins og stundum áður þegar ÍR-ingar mæta á leikvöllinn þá er varnarleikurinn látinn sitja á hakanum. Fyrir vikið eru markverðir liðsins lítt öfundsverðir af hlutverkum sínum. Þetta reyndist vera raunin í dag. Sóknarleikur og hraði var það sem skipti máli enda komu mörkin nánast eins og á færibandi.

Ef undan er skildar upphafsmínúturnar þá tókst leikmönnum KA að eiga í fullu tré við ÍR-inga. Mörkin í fyrri hálfleik voru 37, ÍR skoraði 18 en KA 19.

Á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks tókst KA-mönnum að berja aðeins í brestina í varnarleik sínum. Það skilaði liðinu fljótlega forystu sem hélst til enda og dýrmætum sigri. Þegar á leið leikinn virtist aðeins draga af ÍR-ingum og þeir ekki líklegir til að ná áhlaupi á KA-liðið sem tókst að leika af skynsemi, spila vel úr sinni stöðu.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 13/8, Bernard Kristján Darkoh 8, Róbert Snær Örvarsson 3, Sveinn Brynjar Agnarsson 3, Hrannar Ingi Jóhannsson 3, Eyþór Ari Waage 2, Bjarki Steinn Þórisson 2.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 11/1, 30,6% – Rökkvi Pacheco Steinunnarson 3, 20%.

Mörk KA: Patrekur Stefánsson 9, Einar Rafn Eiðsson 7/2, Einar Birgir Stefánsson 6, Dagur Árni Heimisson 6, Ott Varik 5, Logi Gautason 2, Arnór Ísak Haddsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 1, Daði Jónsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 14, 29,2%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -