Stjarnan átti ekki í teljandi erfiðleikum með að vinna Fjölni í Olísdeild karla í handknattleik í Hekluhöllinni í kvöld og setjast í sjötta sæti deildarinnar með 16 stig. Lokatölur, 33:25, eftir að staðan var 15:8 að loknum fyrri hálfleik. Mest var forskot Stjörnunnar 10 mörk snemma í síðari hálfleik.
Yfirburðir Stjörnunnar voru töluverðir í leiknum sem var töluvert frábrugðin fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Fjölnishöllinni snemma í október og Fjölnir vann með eins marks mun, 29:28.
Fjölnismenn reka lestina í Olísdeildinni með sex stig eftir 16 leiki en sex lið eiga sex viðureignir eftir. Ljóst er á frammistöðunni í kvöld að leikmenn liðsins verða að bíta í skjaldarrendur í næstu leikjum til þess að fikra sig ofar.
Stjarnan hefur krækt í þrjú af fjórum mögulegum stigum í tveimur síðustu leikjum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Stjörnunnar: Hans Jörgen Ólafsson 8, Jóhannes Bjørgvin 4, Tandri Már Konráðsson 6/3, Ísak Logi Einarsson 4, Jóel Bernburg 3, Rytis Kazakevicius 2, Pétur Árni Hauksson 1, Benedikt Marinó Herdísarson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 10, 40% – Sigurður Dan Óskarsson 4/1, 28,6%.
Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 6/3, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 4, Óðinn Freyr Heiðmarsson 4, Gísli Rúnar Jóhannsson 3, Róbert Dagur Davíðsson 3, Elvar Þór Ólafsson 2, Alex Máni Oddnýjarson 2, Gunnar Steinn Jónsson 1.
Varin skot: Bergur Bjartmarsson 7, 24,1% – Guðmundur Helgi Imsland 2, 16,7%.
Tölfræði HBStatz.