- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sagosen seldur til Aalborg – verður strax gjaldgengur

Norski landsliðsmaðurinn Sander Sagosen t.h. er sagður á leiðinni til Álaborgar. Mynd/EPA
- Auglýsing -


Norski handknattleiksmaðurinn Sander Sagosen hefur verið seldur frá norska meistaraliðinu Kolstad til danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold. Verður hann orðinn liðsmaður Aalborg fyrir helgina og getur orðið með liðinu í úrslitahelgi dönsku bikarkeppninnar. Þetta fullyrða TV2 í Danmörku og Aftonbladet í Svíþjóð í morgun. Ekkert hefur heyrst ennþá frá stjórnendum danska félagsins.


Sagosen hefur í allan vetur verið sterklega orðaður við Aalborg Håndbold og þá að hann færði sig um set í sumar. Hann meiddist í leik með norska landsliðinu undir lok heimsmeistaramótsins í síðasta mánuði.

Var ekki með

Sagosen, sem stendur á þrítugu, var ekki í leikmannahópi Kolstad í gærkvöld þegar liðið lagði Nantes, 29:28, í Meistaradeild Evrópu. Hann framlengdi samning við sinn Kolstad fyrir ári fram til ársins 2027.

Var í Álaborg

Frá 2014 til 2017 lék Sagosen með Aalborg Håndbold en fór eftir það til PSG og síðan til THW Kiel fram til 2023 þegar hann flutti heim og samdi til Kolstad en forsvarsmenn félagsins höfðu uppi mjög háar hugmyndir um að byggja upp eitt fremsta félagslið Evrópu. Sumt hefur gengið eftir, annað ekki. Fram kom á sínum tíma að Sagosen yrði launahæsti handknattleiksmaður Noregs með samningi sínum við Kolstad. Eftir það varð Kolstad að skera m.a. niður launakostnað sinn verulega sumarið 2023, um það leyti sem Sagosen flutti til Þrándheims.

Töluvert er um meiðsli í leikmannahópi Aalborg Håndbold. Það kom þó ekki í veg fyrir að liðið vann Evrópumeistara Barcelona á heimavelli í gærkvöld, 36:35, í Meistaradeild Evrópu.

Öflugir leikmenn hafa farið eða eru að fara frá Kolstad:
Magnus Rød (til Pick-Szeged).
Janus Daði Smárason (til Magdeburg og þaðan til Pick-Szeged).
Sander Sagosen (til Aalborg Håndbold).
Torbjørn Bergerud (fer til Wisla Plock í sumar).
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -