Gríðarlegur áhugi er fyrir færeyska karlalandliðinu í handknattleik í heimalandinu. Áhuginn jókst stórlega þegar landsliðið vann sér í fyrsta sinn þátttökurétt í lokakeppni EM 2024. Mörg þúsund Færeyingar lögðu leið til sína til Berlínar og studdu landslið sitt sem var nærri sæti í milliriðlakeppninni.
Ekkert dregur úr áhuganum og nú hafa 700 Færeyingar tryggt sér aðgöngumiða á viðureign Hollendinga og Færeyinga í undankeppni EM sem fram fer í Almere í Hollandi sunnudaginn 16. mars. Fleiri vilja fara en óvissa ríkir um hvort mögulegt verði að fá fleiri aðgöngumiða.
Geta skráð sig
Í tilkynningu frá færeyska handknattleikssambandinu segir að því miður þá fái Færeyingar ekki fleiri aðgöngumiða í bili á leikinn en þá 700 sem þegar eru seldir. Hinsvegar er Færeyingum bent á að þeir geti skráð sig á óskalista um að fá miða á leikinn og verður þeim svarað um næstu mánaðamót hvort þeir hreppa miða eða ekki. Sennilega mun framboðið velta á því hver áhugi Hollendinga verður fyrir leiknum.
Íslenska landsliðið leikur við Grikki í undankeppni EM karla Chalkida í Gikklandi 12. mars. Ekki er vitað til þess að stefnt sé á hópferð þangað.
Mæta Hollendingum tvisvar
Keppnishöllin í Almere í Hollandi rúmar 3.500 áhofendur samkvæmt upplýsingum hjá Handknattleikssambandi Evrópu.
Áður en Hollendingar og Færeyingar mætast í Almere eiga landslið þjóðanna við í fyrsta landsleiknum í nýrri þjóðarhöll innanhússíþrótta í Færeyjum miðvikudaginn 12. mars. Reikna má með að uppselt verði á þá viðureign en nýja keppnishöllin Við Tjarnir, á að rúmar 2.700 áhorfendur í sæti.
Hollendingar hafa þrjú stig í 6. riðli undankeppni EM, Færeyjar og Úkraína tvö hvor og Kósovó eitt. Færeyska landsliðið vann Kósovó í 1. umferð í undankeppninni í byrjun maí 32:21, í Þórshöfn en tapaði fyrir landsliði Úkraínu, 35:32, í Vilnius í Litáen í annarri umferð.