Íslendingar voru í eldlínunni í kvöld þegar keppni hófst í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari, vann sætan sigur á Celje Lasko í B-riðli keppninnar, 31:29, en leikið var í Celje og heimavöllurinn lengi verið nær óvinnandi vígi.
Línumaðurinn Magnus Saugstrup skoraði sjö mörk fyrir Álaborgarliðið og Jonas Samuelsson sex mörk. Tadekj Kljun var sex mörk fyrir Celje-liðið.
Í hinum leik riðilsins vann ungverska stórliðið Veszprém þægilegan sigur á Nantes, 28:24, í Frakklandi. Kiril Lazarov og Spánverjinn Andrian Trejo skoruðu fimm mörk hvor fyrir Nantes. Sænski línumaðurinn stæðilegi, Andreas Nilsson, og Dejan Manaskov skoruðu fimm mörk hvor fyrir ungverska liðið.
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson voru í liði Vive Kielce sem tapaði naumlega fyrir Flensburg, 31:30, í Flens-Arena í Flensborg í A-riðli keppninnar. Sigvaldi Björn skoraði tvö mörk í þremur skotum. Haukur Þrastarson kom lítið við sögu í sínum fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu. Hvít-Rússinn, Artesem Karalek, var markhæstur hjá Kielce með sjö mörk en Norðmaðurinn Magnus Röd skoraði sex mörk fyrir heimamenn.
Meshkov Brest vann ríkjandi Evrópumeistara Vardar 1961 frá Norður-Makedóníu, 24:22, í hinni viðureign kvöldsins í A-riðli. Leikið var í Brest í Hvíta-Rússlandi og voru heimamenn með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda.
Marko Panic og Mikita Vailupau voru markhæstir hjá Brest með sex mörk hvor. Marko Vujin skoraði einnig sex mörk fyrir Vardar og var markahæstur.