Segja má að flest öllu verði tjaldað til í KA-heimilinu á laugardaginn klukkan 17 þegar Hamrarnir taka á Vængjum Júpíters í 2. deild karla í handknattleik. Hver kappinn á fætur öðrum ætlar að hlaupa inn á keppnisgólfið og leika með Hömrunum í leiknum. Óhætt er að segja að valinn maður verður í hverju rúmi í leik sem kallaður er „lokaleikur goðsagnanna“ á heimasíðu KA.
Sverre Andreas Jakobsson, Heimir Örn Árnason, Andri Snær Stefánsson, Guðlaugur Arnarsson og Jónatan Magnússon taka fram skóna og leika með Hömrunum í þetta eina skipti allir saman.
Um er að ræða hverja goðsögnina á fætur annarri með silfurdrenginn frá Ólympíuleikunum í Bejing 2008, Sverre Andreas, í broddi fylkingar.

„Þetta verður leikur fullur af baráttu, tilfinningum og sögulegum augnablikum! Þú getur ekki látið þetta tækifæri framhjá þér fara.
Sýnum stuðninginn, fyllum KA heimilið og kveðjum hetjurnar með stæl!,“ segir m.a. í tilkynningu vegna leiksins enda ekki á hverjum degi sem aðrir eins kappar taka höndum saman í kappleik á Íslandsmótinu í handknattleik karla og fyllsta ástæða til að splæsa tvisvar í upphrópunarmerki.