Landsliðsmaðurinn Sveinn Jóhannsson hefur samið við franska efstu deildarliðið Chambéry Savoie Mont Blanc Handball til þriggja ára. Sveinn kemur til félagsins í sumar eftir eins árs veru hjá norska meistaraliðinu Kolstad. Chambéry Savoie er eitt af rótgrónari handknattleiksliðum Frakklands. Lið þess situr í 13. sæti af 16 liðum deildarinnar um þessar mundir með 12 stig eftir 17 leiki.
Sveinn kom inn í íslenska landsliðið eftir langa fjarveru í nóvember sl. Hann var síðan kallaður inn íslenska landsliðið rétt fyrir HM í janúar í framhaldi af meiðslum Arnars Freys Arnarssonar.
Sveinn Jóhannsson er 25 ára gamall línu- og varnarmaður og hefur leikið 16 A-landsleiki. Sveinn lék upp yngri flokka með Fjölni og upp í meistaraflokk en gekk til liðs við ÍR 2018 og var í eitt ár uns hann flutti til Danmerkur og samdi við SönderjyskE. Eftir það hefur leikið með Skjern, GWD Minden og Kolstad hvar hann verður út keppnistímabilið.
Fréttin var uppfærð kl. 10.20 hinn 26. febrúar eftir að prakkarastrik höfundar var lagfært.