„Við erum hundóánægðir. Þessi byrjun á keppninni veldur vonbrigðum ekki síst vegna þess að við verðskulduðum meira en raun ber vitni um,“ sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik, í samtali við þýska fjölmiða eftir eins marks tap fyrir Spánverjum í upphafsleik beggja þjóða á Ólympíuleikunm í Tókýó í morgun, 28:27, eftir hnífjafna viðureign þar sem Alex Djushebaev skoraði tvö síðustu mörk leiksins fyrir spænska liðið.
„Við lékum mjög góðan leik en því miður þá rak ólánið okkur á lokakaflanum,“ sagði Alfreð ennfremur en þýska liðið á ennþá fjóra leiki eftir í riðlakeppninni. Dæmdur var ruðningur á þýska liðið í tveimur síðustu sóknum þess. Alfreð sagði vafa leika á að allir dómar leiksins á lokakaflanum hafi verið réttir. Hann vildi þó ekki kveða upp úr með það fyrr en hafa skoðað upptökur af lokakaflanum.
Þjóðverjar mæta Argrentínumönnum klukkan tvö, aðra nótt að íslenskum tíma.