- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stjarnan leikur í 10. sinn til úrslita

Leikmenn Stjörnunnar fagna sigrinum á ÍBV og sæti í úrslitum Poweradebikarsins. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -


Stjarnan leikur til úrslita í bikarkeppni karla í handknattleik, Poweradebikarnum í tíunda sinn á laugardaginn. Stjarnan vann öruggan sigur á ÍBV í undanúrslitaleik á Ásvöllum í kvöld, 34:29, eftir að hafa náð mest sjö marka forskoti. Leikmenn ÍBV náðu sér aldrei á strik, ekki síst hvað varnarleikinn snerti. Stjarnan mætir annað hvort Aftureldingu eða Fram í úrslitaleiknum á laugardaginn klukkan 16.
Stjarnan var tveimur mörkum yfir í hálfleik en réði síðan lögum og lofum í síðari hálfleik.


Stjörnumenn byrjuðu leikinn afar vel. Þeir tóku frumkvæðið á upphafsmínútunum. Sóknarleikurinn gekk afar vel, að sama skapi vantaði upp á í varnarleik ÍBV auk þess sem markvarslan var ekki burðug. Stjarnan var komin með þriggja marka forskot, 12:9, og vrtist koma Eyjamönnum í opna skjöldu.

Fimm mínútum fyrir leikslok tók Stjarnan leikhlé marki yfir, 15:14, þegar sóknarleikurinn var farinn að hiksta. Skömmu síðar jafnaði ÍBV metin, 15:15, með fjórða marki Nökkva Snæs Óðinssonar úr vinstra horni. Leikmenn Stjörnunnar fóru illa að ráði sínu síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik. Klaufamistök færðu Eyjamönnum boltann á silfurfati og gerði að verkum að þeir fengu auðveld mörk og héldu þar með sjó. Stjarnan átti tvö síðustu mörk fyrri háfleiks, það síðara á síðustu sekúndu, 18:16, í hálfleik.

Ákefð var í leikmönnum Stjörnunnar í upphafi síðari hálfleiks. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin og náðu fjögurra marka forskoti í fyrsta sinn, 20:16.

Ljósmyndir/J.L.Long

Áfram héldu Stjörnumenn af mikilli baráttu í vörn sem sókn. Tandri Már Konráðsson brá sér með í sóknina meðan liðið var í undirtölu og jók forskotið í fimm mörk, 25:20. Hans Jörgen Ólafsson bætti um betur og jók forystuna í sex mörk, 26:20.
Aldrei kom áhlaupið sem maður vænti frá ÍBV.

Markvarslan var engin hjá ÍBV og Petar Jokanovic mætti á ný til leiks 20 mínútum fyrir leikslok. Hann hafði ekki náð sér á strik snemma leiks og heldur ekki Pavel Miskevich. Skiptingin breyttu litlu.
Stjarnan hélt einfaldelga áfram af fullum þunga. Varnarleikurinn var framúrskarandi með Tandra Má og Jón Ásgeir Eyjólfsson í aðalhlutverkum.

Forskot Garðbæinga var átta mörk þegar 10 mínútur voru eftir af leiktímanum, 30:22. Yfirburðirnir voru ótúlegir. Eyjamenn virtust stemningslausir sem er harla óvenjulegt á þeim bænum og sjö mörkum undir, 32:25, fimm mínútum fyrir leikslok.


Mörk Stjörnunnar: Hans Jörgen Ólafsson 7, Ísak Logi Einarsson 6, Pétur Árni Hauksson 5, Tandri Már Konráðsson 5, Benedikt Marinó Herdísarson 3, Jóel Bernburg 3, Jóhannes Bjørgvin 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Sveinn Andri Sveinsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 7, 30,4% – Adam Thorstensen 5, 29,4%.

Mörk ÍBV: Andri Erlingsson 6/1, Daniel Esteves Vieira 4, Gauti Gunnarsson 4, Nökkvi Snær Óðinsson 4, Dagur Arnarsson 3, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Sveinn Jose Rivera 2, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Elís Þór Aðalsteinsson 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 7, 25,9% – Petar Jokanovic 4, 22,2%.

Tölfræði HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -