Að loknum leikjum 13. og næst síðustu umferðar A-riðils Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld er ljóst hvaða sex af átta liðum riðilsins halda áfram keppni. Eurofarm Pelister átti von fyrir leikina í gær en sú von slokknaði með 10 marka tapi fyrir þýska liðinu Füchse Berlin, 39:29. Hinsvegar er ekki ljóst hvaða lið fer ásamt ungverska liðinu One Veszprém HC beint í átta liða úrslit. PSG, Füchse og Sporting Lissabon eiga öll möguleika á öðru sætinu.
Eins og kom fram á handbolti.is í gær þá hefur Bjarki Már Elísson jafnað sig af meiðslum. Lék hann þar af leiðandi með One Veszprém HC gegn PSG í París í gær. Hann skoraði eitt mark í fjögurra marka sigri, 37:33. Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk í fjórum skotum, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli.
Gasper Marguc var markahæstur hjá Veszprém með sex mörk. Nedim Remili og Sergei Kosorotov skoruðu fimm sinnum hvor.
Kamil Syprzak var atkvæðamestur hjá PSG með sex mörk.
Meistarar Norður Makedóníu, HC Eurofarm Pelister, héldu í við Mathias Gidsel og félaga í Füchse Berlin í 40 mínútur í Mex Schmeling-Halle í Berlin. Eftir það tók þýska liðið öll völd og vann með 10 marka mun, 39:29.
Gidsel og Matthes Langhoff skoruðu níu mörk hvor fyrir Berlinarliðið.
Leikir í A-riðli í síðustu umferð 6. mars:
One Veszprém HC – Füchse Berlin.
Fredericia HK – Dinamo Búkarest.
Orlen Wisla Plock – Sporting Lissabon.
HC Eurofarm Pelister – Paris Saint-Germain Handball.
Staðan: