Aron Kristjánsson og leikmenn Barein máttu bíta í það eldsúra epli að tapa öðru sinni nánast grátlega á síðustu sekúndum í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í dag. Eftir að hafa verið með yfirhöndina frá upphafi þá töpuðu Bareinar með eins marks mun, 26:25, fyrir Portúgal. Á laugardaginn tapaði Barein fyrir Svíþjóð með eins marks mun, 32:31. Þá eins og nú brást Bareinum bogalistin í vítakasti í blálokin sem hefði tryggt þeim jafntefli.
Portúgal komst í fyrsta sinn yfir í leiknum frá því snemma í fyrri hálfleik þegar Pedro Portela skoraði 26. markið þegar ein mínúta var til leiksloka. Portúgalar voru þá manni færri en tókst engu að síður að stela boltanum af sóknarmönnum Barein.
Mohmaed Ahmed átti möguleika á að jafna metin úr vítakasti þegar 20 sekúndur voru eftir en skot hans hafnaði í slá portúgalska marksins er hann freistaði þess að vippa yfir Gustavo Capdeville, markvörð Portúgals.
Bareinar léku afar skynsamlega nær allan leikinn og voru með eins til tveggja marka forskot, m.a. 15:14, í hálfleik. Þeir voru skrefinu á undan allan síðari hálfleik en það var engu líkara en taugarnar hafi verið full þandar síðustu mínútuna enda leikmenn ekki mjög reynslumiklir. Þess utan var Capdeville sannarlega betri en enginn í marki Portúgals þegar mest á reyndi.
Mohamed Ahmed og Husain Alsayyad voru markahæstir hjá Barein með átta og sex mörk. Mohamed Ali markvörður varði á mikilvægum augnablikum, alls 10 skot, 29 %.
Pedro Portela skoraði flest mörk fyrir portúgalska liðið, sex. Leikstjórnandinn Rui Silva var næstur með fimm mörk.
Capdeville varð 13 skot, 43 % en kollegi hans Humberto Gomes náði sér ekki á strik.
Portúgalska liðið heldur þar með í vonina um sæti í átta liða úrslitum með þessum sigri. Þeir töpuðu fyrir Egyptum í fyrradag og hefðu vart mátt við öðru tapi.