„Ástandið hefur aldrei verið verra síðan ég tók við,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari um fjölda þeirra landsliðsmanna sem eru á, eða hafa verið á, sjúkralista síðustu vikurnar.
Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon, Teitur Örn Einarsson, Viggó Kristjánsson, Viktor Gísli Hallgrímsson eru frá vegna meiðsla um þessar mundir. Líkur eru á að Viktor Gísli og Gísli Þorgeir verði með liðum sínum á næstunni og geti þar af leiðandi tekið þátt í landsleikjunum við Grikki í næstu viku.
Til viðbótar meiddist Bjarki Már Elísson á æfingu á HM í janúar en komst aftur af stað í síðustu viku.
Eins og margir eflaust muna þá var Aron Pálmarsson fyrirliði landsliðsins frá æfingum og keppni í nokkrar vikur í desember og janúar vegna meiðsla.
Vafalítið má kenna miklu álagi um öll þau meiðsli sem herja á leikmenn en fjöldi annarra en þeirra íslensku hefur verið frá keppni um lengri og skemmri tíma síðustu vikur og mánuði. Síðast meiddust báðir leikstjórnendur Nantes í kappleik um síðustu helgi auk þess sem Francisco Costa leikmaður Sporting á portúgalska landsliðsins var fyrir hnjaski.
Krafa um tvo sigra
„Hvað sem því líður þá hef ég valið gott landslið sem mætir Grikkjum. Hópurinn er klár og nú get ég farið að einbeita mér því að setja upp leikplan fyrir leikinn ytra. Nú horfum við fram veginn,“ sagði Snorri Steinn sem gerir kröfu um að íslenska landsliðið skili fjórum stigum í safnið í leikjunum tveimur við Grikki. Fyrri leikurinn verður ytra 12. mars en sá síðari í Laugardalshöll laugardaginn 15. mars.
Íslenska landsliðið er í efsta sæti riðils þrjú í undankeppni EM 2026 eftir fyrstu tvær umferðirnar. Ísland hefur 4 stig, Grikkland og Bosnía 2 stig hvor og Georgía er án stiga.
Undankeppninni lýkur í maí. Íslenska landsliðið mætir landsliði Bosníu í Sarajevo 7. maí og Georgíu í Laugardalshöll sunnudaginn 11. maí.