Óttast er að danski landsliðsmaðurinn Aaron Mensing hafi slitið hásin á hægri fæti í viðureign með MT Melsungen gegn THW Kiel í lokaumferð 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Fyrir eru a.m.k. sjö leikmenn liðsins á sjúkralista, þar á meðal Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson. Er staðan orðin þannig hjá toppliði þýsku 1. deildarinnar að það hefur enga hægri handar skyttu eftir við heila heilsu í leikmannahópnum. Mensing var sá síðasti af þeim sem var klár í slaginn fyrir leikinn í gær.
Mensing, sem var kallaður inn í danska landsliðið á dögunum þegar Simon Pytlick úlnliðsbrotnaði fyrir viku, var borinn af leikvelli þegar hann meiddist eftir 12 mínútna leik gegn Kiel í hafnarborginni. Mensing var ekki með boltann þegar hann meiddist, var aðeins að hreyfa sig á vellinum og búa sig undir að fá boltann sendan til sín.
Gríðarlegt álag
Mjög mikið hefur verið um alvarleg meiðsli meðal handknattleikfólks í vetur. Nokkur af fremstu handknattleiksliðum Evrópu hafa langa lista af meiddum leikmönnum. Miklu álagi er vafalaust um að kenna enda leikjadagskrá fremstu liðanna mjög ströng, bæði heimafyrir og í Evrópukeppni félagsliða. Ofan á annað bætast stórmót sem hafa verið þrjú á einu ári, EM 2024, Ólympíuleikrarnir síðasta sumar og HM 2025. Við þetta leggjast ferðalög utan lands og innan auk viðureigna landsliða í undankeppni stórmóta sem eru m.a. á dagskrá í næstu viku.
Eins og kom fram þegar Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla valdi landsliðshópinn fyrir leikina við Grikki í næstu viku er margir landsliðsmenn frá keppni um þessar mundir.