Norska meistaraliðið Kolstad er úr leik í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla eftir tap fyrir Barcelona í kvöld, 36:27. Á sama tíma vann pólska liðið Industria Kielce leik sinn á útivelli gegn RK Zagreb, 27:26, og tryggði sér um leið sjötta sætið í B-riðli keppninnar. Liðin í sætum þrjú til sex taka þátt í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar, þau sem eru í tveimur efstu sætunum, Barcelona og Aalborg, hlaupa yfir fyrstu umferðina og eiga sæti í átta liða úrslitum víst. Tvö neðstu liðin, Kolstad og RK Zagreb, hafa lokið keppni.
Kolstad og Kielce enduðu jöfn að stigum, 11 stig hvort, en þar sem Kielce stendur betur að vígi í innbyrðis viðureignum hreppir liðið sjötta sætið.
Síðustu leikir A-riðils
Úrslitin ráðast í A-riðli Meistaradeildar annað kvöld en þar stendur aðeins eftir keppni um annað sæti riðilsins milli Sporting, Füchse Berlin og PSG. Ljóst er hvaða lið heltast úr lestinni; Fredericia HK og Eurofarm Pelister. Eftir leikina liggur fyrir hvaða lið mætast í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.
Sigvaldi Björn markahæstur
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk fyrir Kolstad og var markahæstur Íslendinganna í leiknum í Barcelona. Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk og Benedikt Gunnar bróðir hans eitt. Sveinn Jóhannsson náði ekki að skora. Svíinn Simon Jeppsson var markahæstur með 10 mörk.
Aleix Gómez skoraði sex mörk fyrir Evrópumeistara Barcelona. Timothey N’guessan og Melvyn Richardson skoruðu fimm mörk hvor.
Magdeburg náði fjórða sæti
Magdeburg náði fjórða sæti B-riðils með því að vinna Pick Szeged, 31:24, á heimavelli. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku ekki með Magdeburg vegna meiðsla. Janus Daði Smárason var næst markahæstur hjá Szeged með fjögur mörk. Pick Szeged varð í fimmta sæti.
Magdeburg mætir þar með liðinu sem hafnar í þriðja sæti A-riðils.
Skoruðu tvö síðustu mörkin
Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold tókst á ævintýralegan hátt að ná öðru stiginu úr viðureign sinni við Nantes í Frakklandi, 29:29. Leikmenn beggja liða horfðu löngunaraugum á annað sæti riðilsins fyrir leikinn. Aalborg Håndbold nægði jafntefli en Nantes varð að vinna. Danska liðið skoraði tvö síðustu mörk leiksins auk þess sem markvörðurinn Fabian Norsten varði langskot á síðustu sekúndum.
Lokastaðan í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í karlaflokki: