„Það er alltaf jafn gaman að spila í Höllinni með okkar áhorfendur sem eru með læti allan leikinn. Mér fannst við skila þessum leik vel,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir 12 marka sigurinn á Grikkjum í Laugardalshöll í dag í undankeppni EM karla í handknattleik, 33:21. Með sigrinum tryggði íslenska liðið sér þátttökurétt á EM á næsta ári.
Man stressið í mínum fyrsta leik
„Það er líka jákvætt að margir nýir leikmenn fengu góðan tíma til að spila, allt upp í 20 mínútur og gera það ótrúlega vel. Ég er stoltur af þeim. Það er ekkert auðvelt að koma inn í leik í Höllinni í fyrsta sinn. Mér leið að minnsta kosti ekki vel í mínum fyrsta leik,“ sagði Ýmir Örn glaður í bragði í samtali við handbolta.is.
Í draumastöðu
„Við erum núna komnir í draumastöðu í riðlinum og með EM-farseðilinn í hendi. Okkar markmið er að vinna alla leiki og nú eigum við tvo eftir í riðlinum í byrjun maí. Við hittum ennþá betur. Þá gerum við ennþá betur. Við erum á þeirri leið að verða betri og betri og ná úrslitum,“ segir Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik.
Lengra viðtal við Ýmir Örn er í myndskeiði ofar í þessari frétt.