Kvennalið Hauka á verk fyrir höndum í síðari leiknum við tékkneska liðið Hazena Kynzvart í Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik um næstu helgi eftir 11 marka tap í Cheb í Tékklandi í dag, 35:24. Leikurinn var í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Hazena Kynzvart var sex mörkum yfir í hálfleik, 17:11.
Satt að segja þá áttu Haukar á brattann að sækja frá upphafi til enda leiksins í Cheb í dag. Hazena Kynzvart skoraði sex fyrstu mörk leiksins á fyrstu sex mínútunum. Af tíu fyrstu mörkum leiksins voru átta skoruð af heimaliðinu.
Leikmenn Hazena Kynzvart náðu að stöðva Elínu Klöru Þorkelsdóttur og Rut Arnfjörð Jónsdóttur, driffjaðrir Haukaliðsins.
Síðari leikurinn verður á Ásvöllum á laugardaginn eftir viku.
Mörk Hauka: Sara Odden 5, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Alexandra Líf Anarsdóttir 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 1, Birta Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 9, 25% – Margrét Einarsdóttir 1, 11,1%.