„Ég á ekki orð til að lýsa þeirri tilfinningu sem fylgir því að standa í þeim sporum sem enginn annar hefur áður gert,“ sagði Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana í sjöunda himni í samtali við TV2 í heimalandi sínu strax eftir að flautað var til leiksloka í Tele 2-Arena í Stokkhólmi í kvöld.
Jacobsen hafði þá stýrt danska landsliðinu til sögulegs sigurs á þriðja heimsmeistaramótinu í röð með sigri á Frökkum í úrslitaleiknum, 34:29.
Stoltur af strákunum
„Strákarnir mínir hafa verið einstaklega einbeittir allt mótið og leikið stórkostlegan handbolta, ekki síst í kvöld þegar mestu máli skipti og allt var undir gegn einstaklega öflugu liði Frakka. Ég er svo stoltur,“ sagði Jacobsen sem verður væntanlega tekinn í guða tölu í Danmörku eftir sigurinn á HM í kvöld.