- Auglýsing -
- Auglýsing -

Á leiðinni út að hefja undirbúning fyrir Ólympíuleika

Aron Kristjánsson stýrir landsliði Barein á Ólympíuleikunum sem fram fara í Japan. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Aron Kristjánsson þjálfari Hauka heldur í dag af landi brott áleiðis til Barein við Persaflóa þar hann tekur til óspilltra málanna við undirbúning karlalandsliðs Barein fyrir Ólympíuleikana sem hefjast í Japan eftir rétt rúman mánuð. Aron er ekki væntanlegur heim til Íslands á ný fyrr en að Bareinbúar hafa lokið við þátttöku á leikunum.


Aron samdi við Handknattleikssamband Barein snemma í ár að taka á ný við landsliðinu. Hann stýrði því frá 2018 fram á síðasta sumar að hann lét af störfum. Þá hafði liðið undir hans stjórn tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum en þeim var frestað um ár eins kunnugt er. Þjóðverji sem tók við af Aroni entist stutt í starfi og við tók Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, sem var með landslið Barein á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.


Barein verður í B-riðli leikanna með heimsmeisturum Dana, silfurliði HM, Svíum, Portúgal Egyptum auk Japana. Aron og lærisveinar mæta sænska landsliðinu í fyrstu umferð 24. júlí en leikið verður annan hvern dag. Riðlakeppninni lýkur 1. ágúst.


Alls verða fjórir Íslendingar þjálfarar landsliða á Ólympíuleikunum. Auk Arons er það Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins, Dagur Sigurðsson sem þjálfari karlalandsliðs Japans og Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins og ríkjandi Evrópumeistara.


Aron er sá eini af þeim fjórmenningum sem ekki hefur tekið þátt í Ólympíuleikum áður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -