- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Á tæpast vaði í Íslendingaslag í Leipzig

Rúnar Sigtryggsson þjálfari Leipzig. Mynd/Klaus Trotter
- Auglýsing -

Leipzig hafði naumlega sigur á Balingen-Weilstetten á heimavelli í dag í miklum Íslendingslag í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Ekki færri en fimm Íslendingar komu við sögu og voru þrír þeirra í sigurliðinu. Leipzig vann naumlega, 26:25, eftir að hafa verið í kröppum dans allan síðari hálfleikinn.

Staðan í hálfleik var 14:8, Leipzig í vil. Liðsmenn Balingen bitu hressilega frá sér í upphafi síðari hálfleiks og velgdu Leipzig piltum hressilega undir uggum. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari Leipzig.

Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk og var markahæstur hjá Leipzig. Þrjú markanna skoraði Seltirningurinn af vítalínunni en einnig brást honum bogalistin í þrígang af þeim stað, þar af tvisvar á síðustu mínútunni. Viggó átti einnig tvær stoðsendingar.

Andri Már Rúnarsson skoraði ekki mark en átti tvær stoðsendingar.

Oddur Gretarsson skoraði tvö mörk fyrir Balingen, bæði úr vítaköstum. Daníel Þór Ingason skoraði einu sinni. Hann átti einnig tvær stoðsendingar.

Leikhlé eftir sex mínútur

Leikmenn Balingen mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik eftir að hafa verið sex mörkum undir í hálfleik. Rúnari þjálfara Leipzig var nauðugur sá kostur að taka leikhlé eftir aðeins sex mínútur þegar forskotið var komið niður í tvö mörk, 15:13. Hléið hafði ekki tilætluð áhrif því skömmu síðar var munurinn orðinn eitt mark, 17:16. Var þá farið að fara um liðlega 4.000 áhorfendur í QUARTERBACK Immobilien ARENA í Leipzig.

Rúmum þremur mínútum fyrir leikslok var staðan jöfn, 24:24. Heimamönnum tókst að bíta í skjaldarrendur á allra síðustu mínútum og tryggja sér nauman sigur.

Leipzig er í níunda sæti þýsku 1. deildarinnar með 10 stig. Balingen rekur lestina með fimm stig. Stöðuna í þýsku 1. deildinni og fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -