Danska handknattleiksliðið Aalborg Håndbold staðfesti fyrir stundu að Aron Pálmarsson kveðji félagið við lok leiktíðar næsta vor. Kemur félagið þar með til móts við óskir hans um að vera leystur undan samningi sem eitt ár verður eftir af. Ennfremur segir Aalborg Håndbold frá því að Aron flytji heim til Íslands af persónulegum ástæðum.
Aron er 32 ára gamall og hefur verið atvinnumaður í Evrópu í 14 ár með THW Kiel, Veszprém, Barcelona og nú síðast hjá Aalborg. Hann er einn sigursælasti handknattleiksmaður Íslendinga og hefur hvarvetna orðið landsmeistari með félagsliðum sínum nema hér á landi. Einnig hefur Aron nokkrum orðið Evrópumeistari með THW Kiel og Barcelona og tvisvar verið valinn besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar, svo fátt eins sé getið af afrekum Arons.
Hermt er samkvæmt heimildum handbolta.is að hugur Aron stefni á að leika með uppeldisfélagi sínu, FH, við heimkomu. Visir.is sagði frá því í morgun að FH kynni Aron til sögunnar á blaðamannfundi síðdegis.
Aron var í eldlínunni með Aalborg í gærkvöld gegn GOG í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar og kemur heim til Íslands í jólaleyfi í dag eftir því sem næst verður komist. Eftir jólin tekur við undirbúningur hjá honum með íslenska landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í næsta mánuði.