Aðalsteinn Eyjólfsson tekur við þjálfun þýska handknattleiksliðsins GWD Minden í sumar. Hann færir sig þar með aftur um set yfir til Þýskalands eftir þriggja ára dvöl hjá ríkjandi meisturum Kadetten Schaffhausen í Sviss.
Frá þessu sagði Mindener Tageblatt fyrir stundu og hefur samkvæmt heimildum.
Samningur Aðalsteins við GWD Minden mun vera til tveggja ára. Hann er öllum hnútum kunnugur í þýskum handknattleik eftir að hafa þjálfað lið þar í landi frá 2008 til 2020, SVH Kassel, ThSV Eisenach, TV Hüttenberg og HC Erlangen auk TuS Weibern frá 2004 til 2005.
GWD Minden, er eitt þekktasta og rótgrónasta handknattleiksfélag Þýskalands en situr um þessar mundir í næst neðsta sæti 1. deildar þegar keppni í deildinni er hálfnuð. Þar með er óvíst hvort Aðalsteinn tekur við liðinu í sumar í 1. eða 2. deild. Núverandi þjálfari GWD Minden, Frank Carstens, hefur þjálfað liðið frá 2015.
Mjög góður árangur í Sviss
Aðalsteinn stýrði Kadetten til sigurs í svissnesku bikarkeppninni vorið 2021 og ári síðar til meistaratitils í Sviss. Um þessar mundir er liðið í harðri baráttu við topp A-deildarinnar en úrslitin ráðast ekki fyrr en í úrslitakeppni í vor. Einnig hefur Kadetten staðið í ströngu í Evrópudeildinni öll þrjú árin sem Aðalsteinn hefur verið þjálfari og náð sæti í útsláttarkeppninni að lokinni riðlakeppninni.
Þekkja Íslendinga
Línumaðurinn Sveinn Jóhannsson gekk til liðs við GWD Minden í upphafi ársins. Íslendingar eru afar vel þekktir í herbúðum GWD Minden en Aðalsteinn verður fyrsti íslenski þjálfarinn sem vinnur fyrir félagið.
Meðal íslenska handknattleiksmanna hjá GWD Minden í gegnum tíðina má nefna Axel Axelsson, Ólaf H. Jónsson, Jón Pétur Jónsson, Sigurð Bjarnason, Patrek Jóhannesson, Einar Örn Jónsson, Gylfa Gylfason og Vigni Svavarsson.
Uppfært: GWD Minden staðfesti klukkan 14 ráðningu Aðalsteins.