- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ætlum að sjálfsögðu að vera með í baráttunni“

Þórir Hergerisson, landsliðsþjálfari Noregs. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Breiddin er alltaf að aukast á toppnum á Evrópumótunum þar sem fleiri landslið blanda sér í baráttuna. Að þessu sinni geta mörg lið sett strik í reikninginn í riðlakeppninni. Keppnin er að verða opnari en fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er að verða líkara karlaboltanum,“ sagði Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik þegar handbolti.is heyrði í honum á dögunum.

Evrópumót kvenna hefst í Danmörku í kvöld með fjórum leikjum. Rússland og Spánn mætst í B-riðli auk landsliða Svíþjóðar og Tékklands. Rúmenía og Þýskaland eigast við í D-riðli áður en Þórir stígur á svið með sveit sína og mætir Pólverjum. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 og verður leikurinn m.a. sýndur á RÚV2.

Norska landsliðið, sem Þórir hefur verið aðalþjálfari hjá í 11 ár, er eitt þeirra liða sem kemur sterklega til greina þegar horft er til þeirra sem geta unnið EM. Þórir hefur stýrt norska landsliðinu þrisvar til sigurs á EM, 2010, 2014 og 2016 en alls hefur Noregur sjö sinnum orðið Evrópumeistari auk fjölda annarra verðlauna á öðrum stórmótum. Þórir hefur átt sinn þátt í þeim flestum enda verið hluti af þjálfarateyminu frá tíunda áratug síðustu aldar þegar gullöld norsks kvennahandknattleiks hófst. Fáir ef nokkrir nú starfandi þjálfarar þekkja alþjóðlega handknattleik betur en Þórir, að minnsta kosti þegar kemur að handknattleik kvenna.

Ætlum að sjálfsögðu að vera með

„Við ætlum að sjálfsögðu að vera með í baráttunni og komast að minnsta kosti inn í úrslitahelgina. Markmið norska handknattleikssambandsins er að kvenna,- og karlalandsliðin fari alla leið á öllum stórmótum. Það opinbert markmið,“ sagði Þórir sem hefur sitt sterkasta lið að þessu sinni að undanskilinni óvissu með markverðina.


Norska landsliðið verður í D-riðli ásamt landsliðum Rúmena, Þjóðverja og Pólverja.


Auk norska landsliðsins segir Þórir að Rússar, Frakkar, Hollendingar, Spánverjar séu með afar sterk lið sem ætli sér öll að vinna mótið.

Rússar og Frakkar firnasterkir

„Rússar verða firnasterkar. Þótt tvo eða þrjá mjög góða leikmenn vanti þá hafa Rússar úr svo stórum hóp að velja að það sér ekki högg á vatni þótt einhverjar vanti. Sama er hjá Frökkum sem eru með marga spennandi unga leikmenn sem hafa verið í vaxandi hlutverki, jafnt hjá landsliðum og félagsliðum.“

Spánverjar byggja upp fyrir HM


„Frakkar og Rússar er sterkir gullkanditar á mótinu. Spánverjar eru líka mjög öflugir. Þeir eru að byggja upp sterkt lið fyrir HM á heimavelli eftir ár.


Hollendingar verða einnig með mjög gott lið þótt góða leikmenn vanti. Hollenska landsliðið hefur verið í sjö ár í röð í undanúrslitum stórmóta þótt stundum hafi vantað í hópinn. Reynslan til að ná langt er fyrir hendi.“

Danir og Serbar geta komið á óvart

„Svo má ekki gleyma Dönunum. Þeir eru með hörkumannskap, nýjan þjálfara og það er góður andi í danska liðinu. Síðan eru þeir á heimvelli sem hefur eitthvað að segja þótt því miður verði ekki fullar hallir af áhorfendum. Danska liðið gæti komið á óvart.
Ef Serbar verða með sitt besta lið geta þeir komið á óvart. Serbar eru með hörkumannskap,“ sagði Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs í samtali við handbolta.is.

  • Handbolti.is hefur fjallað af krafti um EM kvenna í aðdraganda mótsins. Ekki verður slegið slöku við meðan á mótinu stendur.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -