- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ævintýralegur áhugi fyrir oddaleiknum – miðarnir rjúka út – verður uppselt?

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, og Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis (sjá baksvip), takast á í oddaleik í Safamýri á morgun. Mynd/Guðmundur Jakobsson
- Auglýsing -

Gríðarleg eftirvænting eru fyrir oddaleik Víkings og Fjölnis í umspili Olísdeildar karla sem fram fer í Safamýri á morgun, sunnudag, klukkan 14. Stefnir í fullt hús ef framhaldið verður á þeirri miðasölu sem hefur verið síðustu klukkustundir.

Þegar handbolti.is sló á þráðinn til Jóns Gunnlaugs Viggóssonar þjálfara Víkings sagði hann að 200 miðar væru seldir í gegnum miðsöluappið Stubb, þar af um 50 á síðasta hálftíma. „Miðarnir renna út eins og heitar lummur,“ sagði Jón Gunnlaugur og var skiljanlega kátur enda tekjurnar búhnykkur fyrir félagið.

Hlýtur að vera einsdæmi

Mjög góð aðsókn var á þá tvo leiki einvígisins sem fóru fram í Safamýri, leiki eitt og þrjú. „Ég held að það hljóti að vera nánast einsdæmi að 200 miðar séu þegar seldir á leik í Grill-deildinni og það eru enn 18 klukkutímar í leikinn,“ sagði Jón Gunnlaugur ennfremur um leið og hann minnir áhugasama á að tryggja sér aðgöngumiða í tíma.

Hluti áhorfenda á leik Víkings og Fjölnis í Safamýri á mánudaginn var. Mynd/Guðmundur Jakobsson

Sigurliðið í Olísdeildina

Sigurliðið í leik Víkings og Fjölnis á morgun tekur sæti í Olísdeild karla. Tapliðið situr eftir með sárt ennið. Víkingur vann tvo fyrstu leikina, 32:25 og 29:25 en tapaði 25:24 á heimavelli á mánudaginn. Fjölnir vann síðan í ævintýralegum leik eftir tvær framlengingar, vítakeppni og bráðabana á fimmtudagskvöldið í Dalhúsum, 40:39, í einhverjum ævintýralegasta handboltaleik sem fram hefur farið hér á landi.

Ævintýralegur leikur.

„Þetta var algjörlega ævintýralegur leikur. Líklega eitthvað sem maður tekur bara einu sinni þátt í á ævinni. Þvílík skemmtun fyrir áhorfendur og okkur. Hafði allt upp á að bjóða, rauð spjöld, drama, framlengingar og svo lengi mætti telja,” sagði Jón Gunnlaugur sem getur vart beðið eftir leiknum á morgun. Mikill meðbyr er með Víkingsliðinu í hverfinu. “Við reiknum með fullu húsi.“

Forréttindi fyrir okkur

„Það eru algjör forréttindi að fá að taka þátt í oddaleik fyrir framan sitt fólk. Það hefur allt verið undir hjá okkur í umspilinu og á því er engin breyting núna. Við vitum út í hvað við erum að fara og munum spila stoltir fyrir fólkið okkar,“ sagði Jón Gunnlaugur sem hefur gaman af því að Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis sagði í samtali við handbolta.is eftir fjórðu viðureignina á fimmtudagskvöldið að pressan væri öll á Víkingsliðinu.

Skynjar Sverrir pressu?

„Kolleginn minn hjá Fjölni varpaði pressunni yfir á okkur í fjölmiðlum vegna þess að við lékum afar vel í deildarkeppninni. Hvort hann gerir það vegna þess að hann skynjar pressu eða stress hjá sínu liði og sé með þessu að dreifa athyglinni skal ég ekki segja til um. Við einbeitum okkur að minnsta kosti alveg á okkur og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að skila góðum úrslitum,“ sagði Jón Gunnlaugur sem er stríðsmaður í handboltanum eins og hann hefur kyn til.

Skarð fer fyrir skildi

Skarð er fyrir skildi hjá Víkingi að Igor Mrsulja verður í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í fjórða leik liðanna á fimmtudagskvöld. Jón Gunnlaugur segir það vera mjög slæmt að missa Mrsulja út en við því sé ekkert að gera.

„Það er slæmt að missa Igor út, hann hefur leikið vel og notið sín í Víkingstreyjunni. Það vill samt oft verða þannig að þegar einn dettur út þá þjappa hinir sig enn betur saman og eru oft illviðráðanlegir í kjölfarið,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkings í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -