- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ævintýri Gísla Þorgeirs fullkomnað – kom, sá og var sá besti

Bennet Wiegert þjálfari Magdeburg sigurglaður. Gísli Þorgeir er t.v. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í SC Magdeburg eru Evrópumeistarar í handknattleik karla eftir sigur á Kielce í framlenginu í úrslitaleik í Lanxess Arena í Köln í dag, 30:29.

Ævintýri Gísla Þorgeirs var fullkomnað í dag, ekki aðeins með óvæntri þátttöku hans í leiknum eftir að hafa farið úr axlarlið að skothanleggnum, þeim hægri, heldur einnig vann hann leikinn fyrir Magdeburg í framlengingunni. Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk, lagði upp eitt mark og vann vítakast í fjórða markinu. Mögnuð frammistaða sem hreinlega verður vart komið orðum á. Draumurinn var fullkomnaður.

Til að fullkoma helgina var Gísli Þorgeir útnefndur besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu.

Sigurliðið Meistaradeildar Evrópu, SC Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon eru í þessum hóp á myndinni. Mynd/EPA

Gísli Þorgeir skoraði alls sex mörk í leiknum, þar af tvö í framlengingunni þar sem Magdeburgliðið var sterkara.
Kielce hafnaði þar með í örðu sæti Meistaradeild annað árið í röð. Liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.

Liðin eru 21 ár síðan Magdeburg vann síðast Meistaradeild Evrópu undir stjórn Alfreð Gíslason við stjórnvölin og með Ólaf Stefánsson í aðalhlutverki. Nú var það annar Íslendingur sem átti sviðið, Hafnfirðingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson.

Ómar Ingi Magnússon með verðlaunagrip Meistaradeildarinnar. Gísli Þorgeir er við hlið hans. Mynd/EPA

Til viðbótar er Ómar Ingi Magnússon einnig leikmaður Magdeburg. Hann hefur verið meiddur síðustu mánuði en var frábær fyrir áramót og fékk auðvitað einn af gullpeningunum sem deilt var út til leikmanna liðsins í dag.

Hollendingurinn Kay Smits skoraði átta mörk og var markahæstur í síðasta leik sínum fyrir Magdeburg. Hann gengur til liðs við Flensburg í sumar. Gísli Þorgeir og Daninn Michael Damgaard voru næstir með sex mörk hvor.

Alex Dujshebaev var markahæstur hjá Kielce með átta mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -