- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ævintýri ÍR-inga heldur áfram – Selfoss í slæmri stöðu

Kátt á hjalla í herbúðum ÍR-liðsins eftir annan sigur á Selfossi í umspilinu. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

Framhald verður á ævintýri ÍR-inga í umspilskeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik. ÍR vann Selfoss öðru sinni í háspennu framlengdum leik í Skógarseli í dag, 29:28. ÍR-ingar hafa þar með tvo vinninga en Selfoss, sem lék í Olísdeildinni í vetur, er án vinnings og verður að vinna þrjá næstu leiki til þess að halda sæti sínu í deildinni. ÍR vantar einn sigur til viðbótar til þess að senda Selfoss niður í Olísdeildina.

Næsti leikur liðanna verður í Sethöllinni á Selfossi á miðvikudagskvöld. Þá verður allt undir hjá Selfossliðinu.
Aldrei í sögu umspils Olísdeildar kvenna hefur liðið úr Grill 66-deildinni byrjað á tveimur sigrum eins og ÍR-liðið hefur núna gert.

Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma í Skógarseli í dag, 23:23, eftir að Selfossliðið hafði skoraði tvö síðustu mörkin. Í framlengingunni var jafnt á öllum tölum og gríðarleg spenna og ekki síðri stemning með fjölda áhorfenda á leiknum.

Ísabella Schöbel Björnsdóttir varði vítakast frá Kötlu Maríu Magnúsdóttur á síðustu mínútu í jafnri stöðu. Karen Tinna Demian skoraði 29. mark ÍR í næstu sókn og sitt 14. mark í leiknum. Selfossliðið fór í sókn en línusendingu á síðustu stundu rataði ekki í réttar hendur og trylltur fögnuður tók við á meðal leikmanna og stuðningsmanna ÍR. Þeir síðarnefndu munu vafalaust ekki láta sig vanta í Sethöllina á miðvikudagskvöld.

Leikurinn í Skógarseli í dag var afar jafn. Selfoss var marki yfir í hálfleik, 12:11, eftir að hafa náð einu sinni þriggja marka forskoti, 9:6, í yfirtölu eftir rúmlega 20 mínútna leik.

Hildur skellti í lás

Selfoss virtist vera að ná tökum á leiknum snemma í síðari hálfleik. Liðið komst þremur mörkum yfir, 16:13. ÍR-ingar voru á öðru máli. Hildur Öder Einarsdóttir skellti í lás í markinu. ÍR-ingar skoruðu sex mörk í röð og komust þremur yfir. Hildur skoraði m.a. eitt af mörkunum. Við tóku æsilega spennandi mínútur og jöfn staða eftir 60 mínútur, 23:23.

Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 14, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 4, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Sólveig Lára Kjærnested 3, Laufey Lára Höskuldsdóttir 2, Hildur Öder Einarsdóttir 1, Hanna Karen Ólafsdóttir 1, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 17, Ísabella Schöbel Björnsdóttir 1.

Mörk Selfoss: Katla María Magnúsdóttir 16, Roberta Stropé 4, Rakel Guðjónsdóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Hulda Hrönn Bragadóttir 1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1, Karen Helga Díönudóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 11, Áslaug Ýr Bragadóttir 1.

Handbolti.is var í Skógarseli og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan. Reyndar bilaði netsambandið undir lokin en við því er ekkert að gera.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -