Birna Berg Haraldsdóttir, handknattleikskonan sterka hjá deildar- og bikarmeisturum ÍBV, leikur ekki meira með liðinu í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildarinnar. Um leið ríkir óvissa um framhaldið hjá henni takist ÍBV að leggja Hauka og komast í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.
Í samtali Vísis við Birnu Berg kemur fram að hún handarbrotnaði í annarri viðureign ÍBV og Hauka á mánudaginn.
Þar með um er að ræða brot á hægri hönd en Birna Berg er örvhent heldur hún í vonina um að geta tekið þátt í úrslitarimmunni, ef til hennar kemur hjá ÍBV.
„Það er talað um fjórar vikur í gifsi en ég er að vona ég finni einhverja töfralausn á Google til að laga þetta. Ef ég færi eftir læknisráði væri ég búin að afskrifa tímabilið en þetta er hægri höndin þannig ég held í smá von,“ segir Birna Berg í samtali við Vísir.
Næsti leikur á morgun
Fjórða viðureign ÍBV og Hauka fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði á morgun, laugardag, og hefst klukkan 15. ÍBV hefur tvo vinninga en Haukar einn. Vinni ÍBV leikinn á morgun tekur liðið sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn gegn annað hvort Stjörnunni eða Val.