Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Evrópumeistara SC Magdeburg er á góðum batavegi eftir að hafa farið í aðgerð á öxl í sumar, nokkrum vikum eftir að hann fór úr axlarlið í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Barcelona. Vonir standa til þess að Gísli Þorgeir geti leikið með Magdeburg í desember, fyrr en reiknað var með.
Fer sér í engu óðslega
„Endurhæfingin hefur gengið samkvæmt áætlun. Ég er bjartsýnn á að geta leikið fyrr en upphaflega var talið. Ég fer í engu óðslega, tek enga áhættu. Mæti til leiks þegar ég treysti öxlinni,“ segir Gísli Þorgeir í samtali við Magdeburger Volksstimme sem hefur svo sannarlega fengið sinn skammt af axlarmeiðslum á síðustu árum.
Þrátt fyrir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar þá mætti hann óhikað til leiks í úrslitaleiknum og lék við hvern sinn fingur.
Bennet Wiegert þjálfari Magdeburg staðfestir einnig við Magdeburger Volksstimme að horfurnar séu góðar með Gísla og að hann kunni að leika eitthvað með liðinu er kemur inn í desember, komi ekkert óvænt upp. Gísli hafi sinnt endurhæfingu mjög vel auk þess sem það hafi vafalítið haft jákvæð áhrif að Gísli var heima á Íslandi fyrstu vikurnar eftir aðgerð og gat haft stuðning og félagsskap frá fjölskyldu sinni.
Með á EM?
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari sagði á dögunum þegar hann valdi æfingahópinn fyrir leikina við Færeyinga um næstu helgi að bjartsýni ríkti um að Gísli Þorgeir gæti gefið kost á sér í íslenska landsliðið sem tekur þátt í EM. Alltént ef batinn verður jafn góður hér eftir sem hingað til.
„Ég reikna með að Gísli Þorgeir standi okkur til boða ef hann getur byrjað að spila með félagsliði sínu í desember eins og hugsanlega er talið,“ sagði Snorri Steinn á blaðamannfundi fyrr í þessum mánuði.