Magdeburg virðist jafnt og þétt vera að stinga önnur lið af í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla. Liðið hefur aðeins tapað einu stigi í fyrstu 14 leikjunum meðan þau sem eru næst á eftir hafa tapað sjö og átta stigum. Fyrir utan hvern sigur Magdeburg á eftir öðrum þá hefur verið áhugavert að fylgjast með Lemgo sem skotist hefur upp í toppbaráttuna en mörg ár eru liðin síðan lið félagsins var meðal fimm efstu.
Magdeburg vann öruggan sigur á Göppingen á heimavelli í dag, 37:26, eftir að hafa verið 10 mörkum yfir í hálfleik, 22:12.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk, þrjú þeirra úr vítaköstum. Einnig átti hann þrjár stoðsendingar.
Elvar Örn Jónsson skoraði þrisvar fyrir Magdeburg og átti eina stoðsendingu. Gísli Þorgeir Kristjánsson hafði hægt um sig, hann skoraði tvisvar og gaf eina stoðsendingu.
Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki mark fyrir Göppingen.
Áfram tapaði Leipzig
Fátt gengur upp hjá Blæ Hinrikssyni og liðsfélögum í Leipzig. Þeir töpuðu enn einum leiknum í dag þegar þeir sóttu Stuttgart heim, 33:32. Kai Häfner skoraði sigurmark Stuttgart hálfri mínútu fyrir leikslok með sínu 10. marki.
Blær var markahæstur leikmanna Leipzig ásamt Franz Semper með sex mörk. Leipzig er í alvarlegri stöðu með aðeins þrjú stig í neðsta sæti að loknum 15 leikjum.
MT Melsungen vann Wetzlar, 33:32, á heimavelli en Wetzlar er einnig í mestu vandræðum í deildinni eins og Leipzig. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen. Reynir Þór Stefánsson var ekki í leikmannahópi Melsungen í leiknum.
Einar var ekki með
Einar Þorsteinn Ólafsson lék ekki með HSV Hamburg í þriðja leiknum í röð í dag þegar liðið vann Eisenach, 33:29, á heimavelli.
Hannover-Burgdorf tapaði á heimavelli fyrir Füchse Berlin, 32:28. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Staðan í þýsku 1. deildinnni:




