Íslenska liðið heldur hiklaust áfram á sigurbraut heimsmeistaramótsins í handknattleik og áfram er sungið um jökulinn sem logar í Zagreb Arena. Svo sannarlega hélt skemmtunin áfram í kvöld þegar íslenska landsliðið vann sinn fjórða leik á heimsmeistaramótinu. Afríkumeistarar Egyptalands voru lagði að velli, 27:24, í leik þar sem íslensku piltarnir voru með tögl og hagldir frá upphafi til enda. Staðan í hálfleik var 13:9.
Íslenska landsliðið er efst í milliriðli fjögur með sex stig. Egyptar og Króatar eru með fjögur, Slóvenar tvö og Grænhöfðeyingar ekkert eins og Argentínumenn.
Farið er að hilla í fleira en jökulinn sem logar í ljóðinu, einnig nálgast óðum sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Ísland hefur ekki náð í átta liða úrslit á HM í 14 ár. Einn sigur í viðbót þá er sæti í höfn. Og áfram leiðir Óðinn Valdimarsson þjóðina í söng að leikslokum.
Framundan er leikur við landslið heimamanna, Króata, leikur fyrir þá uppá allt og ekkert. Þriðja erfiða prófið í röð bíður íslenska liðsins.
Íslenska landsliðið tók frumkvæðið strax í upphafi leiksins og skoraði tvö fyrstu mörkin. Egyptar skoruðu ekki sitt fyrsta mark fyrr en eftir átta mínútur. Þá komu tvö í röð. Var það í eina skiptið sem staðan var jöfn í fyrri hálfleik, 2:2. Frumkvæðið var áfram Íslands. Vörnin var góð. Menn lásu vel sóknarleik Egypta sem var fremur þunglamalegur með löngum sóknum, ólíkur Slóvenum eins og bent var á fyrir viðureignina. Viktor Gísli Hallgrímssona var frábær í markinu. Alls varði hann átta skot í hálfleiknum.
Sóknarleikurinn var erfiður framan af gegn þungum og stórum varnarmönnum Egypta sem erfitt gat verið að hreyfa til. Karim Hendawy var einnig afar góður í egypska markinu. Hann varði ekki minna en Viktor Gísli. Íslenska liðinu tókst að nýta sér það að Egyptar voru á stundum seinir til baka í vörnina.
Íslenska liðið skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og fór með vænlega fjögurra marka forystu inn í hálfleikshléið, 13:9.
Ekkert var gefið eftir í síðari hálfleik. Íslenska liðið var með þriggja til sex marka forskot frá upphafi til enda. Staðan var 20:17, eftir 44 mínútur en tvö mörk í röð, 22:17, þremur mínútum síðar. Aron skoraði eftir hraðaupphlaup, 24:18, 11 mínútum fyrir leiksloka. Þá var tilfinningin sú að héðan af sneru Egyptar ekki leiknum sér í hag.
Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær í markinu, annan leikinn í röð, alls 14 skot, 38%. Varnarleikurinn var stórkostlegur með Elvar Örn, Elliða Snæ en ekki síst Ými Örn í aðalhlutverkum. Sá síðast nefndi var stórkostlegur.
Sóknarleikurinn var betri en gegn Slóvenum. Aron var stórkostlegur, einnig Gísli Þorgeir svo ekki sé minnst á Viggó.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 9/4, Aron Pálmarsson 8, Orri Freyr Þorkelsson 3, Janus Daði Smárason 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 14/1, 37,8% – Björgvin Páll Gústavsson 0.
Handbolti.is er í Zagreb Arena og fyldgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.