- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Áfram skorar Fram mikið og vinnur leiki

Eiður Rafn Valsson og félagar í Fram unnu Gróttu í kvöld og sitja í þriðja sæti Olísdeildar. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Fram lyfti sér upp í þriðja sæti Olísdeildar karla í handknattleik á nýjan leik með fimm marka sigri á Gróttu, 38:33, í 14. umferð í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal í kvöld. Framarar voru sterkari í síðari hálfleik, ekki síst þegar þeim tókst að koma skikki á varnarleik sinn um skeið og slá vopnin úr höndum Gróttumanna sem ekki hafa unnið leik í deildinni síðan í október. Grótta er í áttunda til níunda sæti með 10 stig eftir 14 leiki og þarf að nýta jólaleyfið til þess að snúa gæfuhjólinu við.


Leikmenn lögðu litla áherslu á varnarleikinn í fyrri hálfleik. Mörkin komu nánast eins og á færibandi og réði fremur óheppni málum ef ekki var skoraði í hverri sókn. Þegar 25 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik var staðan jöfn, 15:15.

Grótta hafði þá fremur haft frumkvæðið en leikmenn Fram sem söknuðu m.a. Rúnars Kárasonar í leiknum en einnig meiddra leikmanna eins og Tryggva Garðars Jónssonar og Arnars Snæs Magnússonar sem verða frá í langan tíma. Á köflum var Magnús Öder Einarsson eini leikmaður Fram inni á leikvellinum sem skriðinn var yfir tvítugt.

Breki Hrafn Árnason náði sér ágætlega á strik síðustu mínútur fyrri hálfleiks sem byggði undir að Fram náði fjögurra marka forskoti rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, 20:16, og Jóni Ómari Gíslasyni tókst að minnka muninn í þrjú mörk þegar hann skoraði úr vítkasti rétt áður en leiktíminn var á enda, 20:17, í hálfleik.

Fimm marka forskot

Framan af seinni hálfleik var leikurinn áfram jafn og liðin skiptust á að vera marki yfir. Þegar kom fram undir miðjan hálfleikinn tóku Framarar af skarið. Þeir bættiu við forskot sitt jafnt og þétt. Tíu mínútum fyrir leikslok voru Framarar komnir fimm mörkum yfir, 32:27, þegar Reynir Þór Stefánsson skoraði sitt sjöunda mark.

Grótta var tveimur mönnum fleiri um skeið og náði að skora þrjú mörk og minnka forskot Fram niður í tvö mörk, 34:32, hleypa spennu í leikinn þegar hálf fjórða mínúta var til leiksloka. Spennan sú entist ekki lengi vegna þess að um leið og jafnt var í liðum voru Framarar ekki lengi að auka forskot sitt í fjögur mörk á ný.


Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði 11 mörk í 12 skotum fyrir Framliðið og fór á kostum. Reynir Þór Stefánsson naut sín einnig í hröðum og opnum leik. Hann skoraði níu mörk og var með 10 sköpuð færi.

Ísfirðingurinn Jón Ómar Gíslason var að vanda góður hjá Gróttu, öruggur jafnt af línunni sem og frá vítalínunni.

Mörk Fram: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 11, Reynir Þór Stefánsson 9, Marel Baldvinsson 6, Dagur Fannar Möller 4, Eiður Rafn Valsson 3, Erlendur Guðmundsson 2, Ívar Logi Styrmirsson 2, Magnús Öder Einarsson 1, Arnþór Sævarsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 10, 33,3% – Arnór Máni Daðason 2, 18,2%.

Mörk Gróttu: Jón Ómar Gíslason 10/4, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 5, Antoine Óskar Pantano 5, Bessi Teitsson 4, Atli Steinn Arnarson 3, Ágúst Ingi Óskarsson 2, Gunnar Dan Hlynsson 1, Sæþór Atlason 1, Elvar Otri Hjálmarsson 1, Gunnar Hrafn Pálsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 6, 18,8% – Hannes Pétur Hauksson 3, 27,3%.

Tölfræði HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -