Tveir af yngri leikmönnum handknattleiksliðs Hauka í Olísdeild karla, Ari Dignus Maríuson markvörður og Ásgeir Bragi Bryde Þórðarson hafa skrifað undir framlengingu á samningum sínum við félagið.
„Ari, sem er markvörður, og Ásgeir Bragi, sem er línumaður, eru báðir fæddir árið 2005 og voru í stóru hlutverki í U-liði Hauka sem spilar í Grill 66 deildinni. Ásamt því voru þeir hluti af meistaraflokks hóp Hauka þar sem Ari kom við sögu í nokkrum leikjum en Ásgeir Bragi var með í öllu leikjum tímabilsins.
Báðir eiga þeir að baki yngri landsleiki fyrir Hauka en Ari hefur verið hluti af U-21 árs liði Íslands undanfarið ár og lék til að mynda á æfingamóti í Frakklandi með liðinu í síðasta mánuði.
Það er sönn ánægja að ungir og efnilegir leikmenn Hauka framlengi samninga sína við Hauka og verður gaman að fylgjast með þeim taka næsta skref í sínum ferli á Ásvöllum á komandi árum,“ segir m.a. í tilkynningu frá Haukum.
Sjá einnig: Ester Amíra og Þóra verða áfram hjá Haukum