- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afríkumótið er í uppnámi – fimm HM farseðlar í óvissu

Leikmenn Marokkó og Alsír takast á í leik á HM í Egyptalandi í fyrra. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ekki gengur þrautarlaust að koma Afríkumeistaramótinu í handknattleik karla á dagskrá. Mótið, sem er undankeppni fyrir heimsmeistaramótið á næsta ári, átti að fara fram í Marokkó í janúar en var frestað eftir að maðkur reyndist vera í mysunni þegar dregið var í riðla. Mótinu var fyrst slegið á frest fram í júní og síðar fram í miðjan júlí. Vendingar urðu á fundi framkvæmdstjórnar Handknattleikssambands Afríku, CAHB, í lok síðustu viku og segja má að mótahaldið sé komið á byrjunarreit.


Nú er málum svo komið að óvíst er hvar mótið fer fram eftir að ákveðið var að svipta Marokkó hlutverki gestgjafa. Um leið var samþykkt að afturkalla rétt Alsír til þess að halda Afríkumótið eftir tvö ár.


Lengi hafa verið ýfingar á milli Marokkó og Alsír vegna landssvæðis í vesturhluta Sahara. Innan hins umdeilda landsvæðis hugðust Marokkómenn halda mótið í sumar. Alsírbúar viðurkenna ekki rétt Marókkó til yfirráða á umræddu svæði og höfðu dregið landslið sitt úr keppni af þessum sökum.


Ásamt Alsír ætlaði Sambía að hundsa mótið í Marokkó vegna keppnisstaðar.


Framkvæmdastjórn CAHB ákvað að höggva á hnútinn varðandi mótahaldið og greindi frá ákvörðun sinni í yfirlýsingu eftir fundinn. Hinsvegar liggur ekki fyrir hver verður gestgjafi Afríkumótsins 11. til 18. júlí og því má segja að annar hnútur hafi verið hnýttur. Ekki hefur heldur verið dregið í riðla enda óljóst hvaða þjóðir taka þátt.


Fimm efstu liðin á Afríkumeistaramótinu 2022 hreppa farseðla á HM. Þess vegna er eftir nokkru að slægjast.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -