- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aftur á tæpasta vaði – Björgvin bjargaði í lokin

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Björgvin Páll Gústavsson bjargaði báðum stigunum í kvöld þegar íslenska landsliðið var á tæpasta vaði á Evrópumótinu í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München. Hann varði síðasta markskot Svartfellingsins Vuko Borozan og sá til þess að íslenska landsliðið vann sinn fyrsta leik á mótinu, 31:30, eftir aðrar æsilega spennandi lokamínútur. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sigurmarkið mínútu fyrir leikslok. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 17:15, Íslandi í vil.

Ævintýraleg mistök Svartfellinga þegar hálf önnur mínúta var eftir og staðan jöfn, 30:30, varð vatn á myllu íslenska landsliðsins. Einhverra hluta vegna hljóp leikmaðurinn á völlinn sem átti ekki að vera inn á. Þar með voru Svartfellingar komnir með átta menn á leikvöllinn sem ekki er leyfilegt. Þar með misstu þeir bæði boltann og leikmann af leikvelli og léku þar með manni færri til loka.

Ráðherrarnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Benediktsson fagna þegar sigurinn var i höfn í München í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Síðasti leikur íslenska landsliðsins í riðlakeppninni verður á þriðjudaginn klukkan 19.30.

Þrátt fyrir batamerki í sóknarleik íslenska landsliðsins frá viðureigninni við Serba í fyrradag þá tóku við aðrir erfiðleikar. Þeir voru að nýta opin marktækifæri. Ekki færri en 13 fóru forgörðum. Mörg varði Nebosja Simic en önnur misstu marks.
Hvað eftir annað náði íslenska landsliðið góðri forystu, 10:5, í fyrri hálfleik og ítrekað þriggja marka forskoti í síðari hálfleik, síðast 25:22, þegar korter var eftir. Í stað þess að gera út um leikinn missti liðið niður forystuna.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Þegar upp er staðið mátti engu muna að þessi viðureign endaði með jafntefli eða hreinlega tapaðist. Hvað verður boðið upp á gegn Ungverjum sem löngum hafa reynst erfiðir?

Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 7/3, Elliði Snær Viðarsson 6, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Aron Pálmarsson 3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Bjarki Már Elísson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Stiven Tobar Valencia 1, Janus Daði Smárason 1, Viggó Kristjánsson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7, 31,8%, Viktor Gísli Hallgrímsson 7, 31,8%.

Mörk Svartfellinga: Vuko Borozan 5, Vasilije Kaludjerovic 4, Nemanja Grbovic 4, Radojica Cepic 3, Branko Vujovic 3, Mirko Radovic 3, Luka Radovic 3, Milos Vujovic 2, Stefan Cavor 2, Vuk Lozovic 1.
Varin skot: Nebosja Simic 12, 30,8%.

EM 2024 – leikjadagskrá, úrslit, staðan – riðlakeppni

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Ólympíuhöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -