Danski handknattleiksdómarinn Jesper Madsen fékk aftur aðsvif í dag þegar hann dæmdi viðureign Aalborg Håndbold og TTH Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni. Aðeins eru 16 dagar síðan hann fékk einnig aðsvif og hneig niður í viðureign Veszprém og Sporting í Meistaradeild Evrópu.
Um miðjan síðari hálfleik í leiknum settist Madsen á leikvöllinn lét vita af líðan sinni. Eftir að hafa fengið aðhlynningu hjá lækni á staðnum var Madsen færður af leikvelli til nánari skoðunar.
Mads Hansen, kollegi Madsen, dæmdi leikinn einn til leiksloka eins og hann gerði í Ungverjalandi á dögunum. Eftir það atvik fór Madsen í læknisskoðun í Ungverjalandi og einnig eftir að heim til Danmerkur var komið. Ekkert fannst sem gat skýrt svimann.
Verri en síðast
Í viðtali við TV2 eftir leikinn í dag sagði Hansen að Madsen virtist vera verri nú en í fyrra skiptið. Að þessu sinni hafi hann m.a. kastað upp í sjúkrabílnum við keppnishöllina meðan hann var til skoðuna áður en haldið var á spítala í Álaborg.
Meðal þeirra fremstu
Madsen og Hansen hafa verið með allra fremstu dómarapörum Evrópu um árabil. Þeir eiga að dæma leik í undankeppni EM karlalandsliða í næstu viku. Ósennilegt er að þeir dæmi þann leik og bendir margt til þess að Madsen verði að taka sér frí frá dómgæslu næstu vikur meðan leitað er að orsökum svimans.