Íslenska landsliðið í handknattleik leikur um 7. sætið á heimsmeistaramóti 20 ára liða kvenna á sunnudaginn. Það er niðurstaðan eftir tap fyrir sænska landsliðinu, 33:31, í hörkuspennandi leik í Jane Sandanski Arena íþróttahöllinni í Skopje í Norður Makedóníu í dag. Svíar voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:15.
Síðar í kvöld kemur í ljós hvort íslenska liðið mætir Sviss eða Portúgal en viðureign liða þjóðanna hefst á eftir.
Íslenska liðið var skrefi á eftir nær allan fyrri hálfleikinn. Varnarleikurinn var ekki eins öflugur og stundum áður. Þó komu ágætir kafla á milli.
Svipað var upp á teningnum í síðari hálfleik. Svíar voru skrefi á undan, ekki síst vegna þess að varnarleikur þeirra gekk betur. Rétt fyrir miðjan síðari hálfleik leit út fyrir að íslenska liðið væri að ná yfirhöndinni. Það skoraði fjögur mörk í röð og náði í tvígang tveggja marka forskoti, 24:22 og 25:23. Svíar komu sér inn í leikinn á ný og héldu forskotinu til leiksloka, eitt til þrjú mörk.
Íslenska liðið reyndi að pressa undir lokin og minnkaði muninn í eitt mark, 32:31, þegar 20 sekúndur voru eftir. Nær komst íslenska liðið ekki og Svíar fögnuðu sigri í skemmtilegum leik þar sem úrslitin voru því miður ekki nógu ánægjuleg fyrir okkur.
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 12/7, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1 Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 10/1, 24%.
Handbolti.is var í Jane Sandanski Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu.