Íslenska landsliðið í handknattleik mátti þola sárt tap fyrir Þjóðverjum í fyrstu umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln, 26:24. Sigurinn var innsiglaður með ólöglegri sókn á síðustu sekúndum. Leikinn dæmdu Gjorgji Nachesvki og Slave Nikolov frá Norður Makedóníu. Menn sem að mati handbolta.is eiga ekki að vera í hópi dómara á þessu móti.
Liðið lék vel, jafnt í vörn sem sókn en því miður þá voru glötuð marktækifæri sem varð þess valdandi að íslenska landsliðið ynni leikinn í stað þess að tapa honum. Þjóðverjar voru marki yfir í hálfleik, 11:10.
Sterkur varnarleikur og góð markvarsla setti svip sinn á leikinn og varð þess valdandi aðeins voru skoruð fimmtíu mörk í leiknum sem fór fram í frábærri stemningu og umgjörð að viðstöddum 19.750 áhorfendum.
Varnarleikur íslenska liðsins var framúrskarandi. Viktor Gísli Hallgrímsson varði afar vel allan leikinn auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson varði tvö vítaköst af þremur.
Sóknarleikurinn var leikinn af þolinmæði og yfirvegun. Fjölmörg færi gáfust en því miður þá tókst ekki að nýta þau sem skildi. M.a. fóru fjögur vítaköst forgörðum. Andreas Wolff varði þrjú og eitt fór í slá.
Þegar um tíu mínútur voru eftir þá komst íslenska liðið tvisvar marki yfir, 18:19 og 19:20, og virtist vera að síga framúr. Því miður varð sú ekki raunin.
Næsti leikur verður við Frakka á laugardaginn klukkan 14.30.
Mörk Íslands: Janus Daði Smárason 6, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Aron Pálmarsson 3, Viggó Kristjánsson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Ómar Ingi Magnússon 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Bjarki Már Elísson 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 13, 34,21% – Björgvin Páll Gústavsson 2/2, 66,6%.
Mörk Þýskalands: Juri Knorr 6, Johannes Golla 4, Julian Köster 4, Timo Kastening 3, Sebastian Heymann 2, Kai Häfner 2, Martin Hanne 2, Jannick Kohlbacher 1, Lukas Mertens 1, Rune Damke 1.
Varin skot: Andreas Wolff 12/3, 33,3%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is var í Lanxess Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.