- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding fékk sumargjöfina

Birgir Steinn Jónsson og leikmenn Aftureldingar taka á móti Val í fyrstu umferð undanúrslita umspils Olísdeildar karla. Ljósmynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding vann Val með þriggja marka mun, 28:25, að Varmá í kvöld í stórskemmtilegum handboltaleik í húrrandi stemningu að kvöldi síðasta vetrardags að Varmá í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik. Aftureldingarliðið lék frábærlega síðustu 10 mínúturnar og skoraði á þeim kafla sex mörk gegn tveimur og sneri leiknum sér í hag og fékk sumargjöfina, fyrsta vinningin í einvíginu.

Næsta viðureign liðanna verður í N1-höll Vals á Hlíðarenda fimmtudaginn 2. maí.

Valsmenn fara við aftureldingu af landi brott til Rúmeníu þar sem þeir mæta Baia Mare í síðari undanúrslitaleik Evrópubikarkeppninnar á sunnudaginn.

Áhorfendur fengu allt fyrir peninginn

Tveir stórkostlegir

Þorsteinn Leó Gunnarsson og Jovan Kukobat voru stórkostlegir í liði Aftureldingar. Þorsteinn Leó hamraði inn í 10 mörkum og Kukobat, sem hyggst leggja skóna á hilluna í lok leiktíðar, varði eins og berserkur, var með vel yfir 50% hlutfallsmarkvörslu í síðari hálfleik.

Ekki blés þó byrlega hjá Aftureldingu framan af síðari hálfleik í kvöld. Liðið skoraði aðeins eitt mark á fyrsta stundarfjórðungnum og gat þakkað Kukobat markverði að vera aðeins tveimur mörkum undir, 18:20.

Fimm mörk í röð

Afturelding var sterkari framan af og um miðjan fyrri hálfleikinn var forskot liðsins orðið þrjú mörk, 11:8. Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals tók leikhlé og lagði sínum mönnum lífsreglurnar. Þeir svöruðu með fimm mörkum í röð sem skilaði tveggja marka forskoti, 11:13.

Birgir Steinn Jónsson jafnaði metin, 14:14. Í framhaldinu sigu heimamenn fram úr á ný og voru tveimur mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki, 17:15. Ekki síst náði Afturelding forskoti á ný vegna góðrar innkomu Jovans Kukobat í markið eftir 20 mínútur.

Þegar Valsmenn áttu þess kost að sækja hratt þá nýttu þeir það vel og fengu Mosfellingar þá lítt við ráðið.

Eitt mark á korteri

Valur skoraði þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og komst yfir, 17:18. Mosfellingar skoruðu loks eftir rúmlega sjö mínútur sitt fyrsta mark í hálfleiknum. Ekkert gekk áfram að skora og eftir 15 mínútur var staðan 18:20 fyrir Val. Markverðir liðanna voru í aðalhlutverki, Jovan Kukobat hjá Aftureldingu og Björgvin Páll Gústavsson í marki Vals.

Lokakaflinn var hraður og skemmtilegur reyndar eins og leikurinn var lengst af. Kukobat var Valsmönnum óþægur ljár í þúfu eins og áður hefur verið sagt.

Rautt spjald

Það sló vopnin nokkuð úr höndum Valsmanna þegar Tjörvi Týr Gíslason fékk beint rautt spjald fyrir brot átta mínútum fyrir leikslok í stöðunni, 23:22 fyrir Val.

Þótt langt sér í næsta leik liðanna er þess virði að bíða því víst er að viðureignin í kvöld var aðeins forsmekkurinn að því sem kom skal.

Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 10, Birgir Steinn Jónsson 7/1, Jakob Aronsson 4, Ihor Kopyshynskyi 3, Árni Bragi Eyjólfsson 2, Birkir Benediktsson 1, Bergvin Þór Gíslason 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 17, 58,6% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 2, 13,3%.
Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 7/3, Tjörvi Týr Gíslason 4, Andri Finnsson 3, Ísak Gústafsson 3, Alexander Petersson 2, Magnús Óli Magnússon 2, Róbert Aron Hostert 2, Aron Dagur Pálsson 1, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11, 28,9%.

Handbolti.is var að Varmá og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -