ÍBV lagði Aftureldingu, 32:24, í fyrsta leik fjórðu umferðar Olísdeildar kvenna í handknatttleik í Vestmannaeyjum í kvöld eftir að hafa verið þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik.
Með sigrinum komst ÍBV upp að hlið Vals í efsta sæti deildarinnar. Hvort lið hefur sex stig en ÍBV hefur leikið einum leik fleira, alls fjóra, en Valur hefur lokið þremur. Valur mætir ÍR á miðvikudagskvöld.
Afturelding situr í sjötta sæti með tvö stig. Næst fyrir ofan Stjörnuna og KA/Þór.
ÍBV var með yfirhöndina frá upphafi til enda. Aftureldingarliðið átti nokkra mjög góða spretti í fyrri hálfleik og tókst m.a. minnka muninn oftar en einu sinni í eitt mark, m.a. 10:9, eftir að hafa verið 8:4 undir þegar tekið var leikhlé. ÍBV var lánsamara á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og fór með þriggja marka forskot inn í hálfleikinn. Þegar fyrri hálfleikur var gerður upp var meginmunurinn á liðunum, Marta Wawrzykowska markvörður. Hún varði 42% skota og munaði um minna.
Aftureldingu gekk illa framan af síðari hálfleik. Varnarleikur ÍBV reyndist Mosfellingum erfiður. ÍBV náðu sjö marka forskoti, 20:13. Eftir leikhlé og endurskipulagningu á leiknum tókst Aftureldingu að minnka bilið niður í þrjú mörk. Nær komst liðið ekki. ÍBV sýndi styrk sinn á síðustu 10 – 12 mínútunum.
Mistökum fjölgaði í leik Aftureldingar og varð því til sá munur sem skildi liðin að þegar flautað var til leiksloka.
Staðan og leikjadagskrá Olísdeilda.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 9/5, Karolina Olszowa 7, Sunna Jónsdóttir 4, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Britney Cots 3, Elísa Elíasdóttir 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 12/1, 37,5% – Réka Edda Bognár 1, 20%.
Mörk Aftureldingar: Hildur Lilja Jónsdóttir 8/3, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 3, Ragnhildur Hjartardóttir 3, Anna Katrín Bjarkadóttir 3, Susan Ines Gamboa 2, Drífa Garðarsdóttir 1, Katrín Erla Kjartansdóttir 1, Katrín Helga Davíðsdóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 9, 23,7%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.